Fara í efni

Hugleiðsla á ekki að vera áraun - hugleiðing Guðna á fimmtudegi

Hugleiðsla á ekki að vera áraun - hugleiðing Guðna á fimmtudegi

Um leið og við hættum að dæma hugsanir okkar og látum af afstöðunni og viðhorfinu gagnvart þeim öðlumst við hreinan hug.

Við aftengjum hugsanirnar frá tilfinningunum og í því ástandi er kyrrðina og friðinn að finna. Frumur alls líkamans andvarpa af feginleik þegar við hugleiðum, því þannig gefum við þeim hvíld og rými til að endurnýja sig og sendum þeim aukinn súrefnisforða.

Hugleiðsla á ekki að vera áraun. Hún á ekki að snúast um að rembast og reyna. Margir halda að hugleiðsla snúist um að slökkva á hugsunum sínum. Þeir sem gera það verða alltaf vonsviknir þegar þeir verða þess varir, í hugleiðslunni, að þeir eru farnir að hugsa aftur og enn einu sinni.

Þessu er þveröfugt farið. Við reynum ekki að slökkva á hugsunum okkar, en skiljum að þegar við hugleiðum í vitund erum við ekki í viðnámi gagnvart þeim heldur fylgjumst við einfaldlega með þeim án þess að dæma. Það hefur kyrrð og ró í för með sér – þar fer hvíldin fram. Í raun eigum við að fagna því augnabliki þegar við skynjum hugsanirnar að nýju, því að á því augnabliki erum við aftur mætt á svæðið – þá finnum við að við erum dottin inn í fjarveru og hugsanir og getum snúið aftur.

Við dæmum ekki brottförina heldur fögnum við endurkomunni í hvert einasta skipti, því að komin erum við máttug.