Fara í efni

Regluleg hreyfing í krabbameinsmeðferð!

Áfallið við að greinast með krabbamein getur verið yfirþyrmandi. Sameiginlegt er þó með mörgum að trúa ekki fréttunum og láta, í styttri eða lengri tíma, eins og ekkert hafi gerst. Áður en langt um líður hellast staðreyndirnar þó yfir viðkomandi og sættast þarf við raunveruleikann og gera það sem gera þarf. Sorgarferlið sem tekur við hjá þeim sem greinast með krabbam
Hreyfing er líkamanum nauðsynleg.
Hreyfing er líkamanum nauðsynleg.

Áfallið við að greinast með krabbamein getur verið yfirþyrmandi. Sameiginlegt er þó með mörgum að trúa ekki fréttunum og láta, í styttri eða lengri tíma, eins og ekkert hafi gerst. Áður en langt um líður hellast staðreyndirnar þó yfir viðkomandi og sættast þarf við raunveruleikann og gera það sem gera þarf. Sorgarferlið sem tekur við hjá þeim sem greinast með krabbamein er oftar en ekki mjög líkt þrátt fyrir að ólíkir einstaklingar eigi í hlut og hugsanir um framhaldið verða sterkar og andlegt og líkamlegt álag verður mikið. Strax á þessu stigi þarf að huga að endurnæringu og ein besta leiðin til þess er að halda áfram með hóflega hreyfingu eða fara af stað með góða einstaklingsbundna æfingaáætlun.

Við vitum öll að hreyfing er líkamanum nauðsynleg. Hófleg hreyfing styrkir okkur andlega og líkamlega og gefur okkur orku sem við nýtum til daglegra starfa. Margsinnis hefur verið sýnt fram á að hreyfing getur haft forvarnargildi gagnvart hinum ýmsu kvillum og sjúkdómum og þar á meðal er krabbamein. Regluleg hreyfing getur haft jákvæð áhrif gegn ristilkrabbameini, krabbameini í blöðruhálskirtli og brjóstakrabbameini, svo fáeinar tegundir krabbameins séu nefndar, þó svo að tengingin þarna á milli sé ekki alltaf ljós. Jákvæð áhrif gagnvart fleiri tegundum krabbameins hafa verið nefnd til sögunnar en oft hefur vísindamönnum reynst erfitt að benda á bein áhrif á milli hreyfingar og ákveðinnar tegundar krabbameins. Regluleg hófleg hreyfing er þó alltaf af hinu góða og getur einungis haft jákvæð áhrif.

En hvað með hreyfingu þegar fólk hefur þegar greinst með krabbamein? Geta sérfræðingar á sviði heilsuræktar alltaf ráðlagt krabbameinssjúklingum að hreyfa sig? Svarið er í langflestum tilfellum jákvætt en þó með þeim formerkjum að hreyfingin henti hverjum og einum einstaklingi sem greinst hefur með krabbameinið. Áður fyrr var algengara að einstaklingum væri ráðlagt að hreyfa sig sem minnst og hvílast á meðan á krabbameinsmeðferð stæði. Hugsunin var oft sú að einstaklingarnir væru undir gríðarlegu álagi og var talið óheppilegt að bæta við auknu álagi í formi hreyfingar. Þetta á vissulega við enn þann dag í dag en eingöngu í ákveðnum tilfellum. Nú eru flestir sammála því að ef hreyfingu verður við komið þá verði ávinningurinn sjáanlegur og vel mælanlegur og þá ekki síst í almennri, betri líðan þess, sem greinst hefur með sjúkdómin

Margt ávinnst þegar þjálfunaráætlun er haldið meðan á krabbameinsmeðferð stendur. Ávinningurinn felst m.a. í óbreyttri hreyfigetu, óbreyttu jafnvægi, viðhaldi á vöðvamassa, minni líkum á hjartasjúkdómum, óbreyttu blóðflæði til útlima, minni líkum á beinþynningu, aukinni sjálfsvitund og auknu sjálfstrausti, minni líkum á þunglyndi, ógleði verður ólíklegri, minni líkur verða á að félagshræðsla geri vart við sig, minni líkur verða á þreytueinkennum og að líklegra er að þyngd haldist óbreytt. Ennfremur standa margir í þeirri trú að ónæmiskerfið haldist sterkara og sé því í raun stór þáttur í því að krabbameinssjúklingur nái sér fyrr eftir meðferðina. Langflestum ber þó saman um að heildarávinningur hreyfingar meðan á krabbameinsmeðferð stendur felist í auknum lífsgæðum einstaklingsins og með auknum lífsgæðum er mikið unnið í baráttunni við krabbameinið.

En hvers konar æfingaáætlun er óhætt að fylgja fyrir einstakling sem er í krabbameinsmeðferð? Eins og minnst var á fyrr þá fer það eftir einstaklingnum sjálfum og þeirri meðferð sem hann er í. Aðalatriðið er að æfingaáætlunin sé gerð í samvinnu við krabbameinslækni viðkomandi og að hún sé sérsniðin að einstaklingnum. Af lyfjunum sem tekin eru og af þeim krabbameinsmeðferðum sem verða fyrir valinu stafar alltaf einhver hætta og getur hreyfing aukið þessa hættu þegar farið er af stað. Því er það afskaplega mikilvægt að læknir sjúklingsins sé meðvitaður um fyrirætlun viðkomandi og geti komið með ábendingar og tillögur þannig hættan sé því eins lítil og mögulegt er.

Mikilvægt er að fara sér hægt í byrjun. Hreyfing meðan á krabbameinsmeðferð stendur er fyrst og fremst hugsuð sem tæki til að halda í þau lífsgæði sem einstaklingurinn hefur og auka þau ef þörf er á. Nokkrum sinnum í viku og nokkrar mínútur í hvert skipti getur skipt miklu máli þó svo að umfangið sé ekki mikið. Einnig er mikilvægt að ákefðin sé ekki of mikil og er létt til miðlungserfið líkamsrækt af hinu góða. Ganga úti í góðu veðri eða inni þegar veður er slæmt, léttur hjólatúr, sundferð, Pilates eða jóga og fleira og fleira er af hinu góða og getur gert gæfumuninn. Mikilvægt er að koma frekari hreyfingu á blóðið þannig að öll líffæri líkamans fá hæfilegt magn af súrefni til þess að takast á við þetta erfiða tímabil. Einstaklingar þurfa að velja sér hreyfingu sem þeim þykir skemmtileg. Að öðrum kosti er ólíklegt að æfingaáætlun haldist. Eins skiptir miklu máli að gera sér grein fyrir því hvernig líðanin er. Mjög mismunandi er frá degi til dags og jafnvel innan hvers dags hvernig einstaklingum líður meðan á meðferð stendur. Þá daga sem vanliðan er mikil má velja styttri vegalengdir til göngu eða styttri hjólaleiðir og fara jafnvel bara í heitu pottana í sundlaugunum ef slíkt er í boði. Þá daga sem vanlíðan er minni er hægt að lengja göngu- eða hjólatúrinn og taka einum eða tveimur sundferðum meira. Þegar ákefð eða lengd hreyfingar er ákveðin þá er líðan einstaklingsins og það sem hann ræður við í hvert skipti það sem mestu máli skiptir.

Mikilvægt er að hafa í huga hvað það er sem ætlunin er að ávinnist með hreyfingunni og er oftast um að ræða aukna vellíðan og aukin lífsgæði viðkomandi. Gott er að skrá hjá sér hvað var gert og hversu lengi það stóð yfir ásamt upplýsingum hvernig líðanin var fyrir hreyfingu og eftir hreyfingu. Hreyfingin verður svo miklu mun skemmtilegri þegar einhver annar tekur þátt og því er nauðsynlegt, hið minnsta einstaka sinnum, að fá einhvern með sér, t.d. einhvern úr fjölskyldunni. Einnig gegna stuðningsnet eins og Kraftur mikilvægu hlutverki. Síðast en ekki síst er mikilvægt að gera sér grein fyrir afrakstrinum og ávinningnum og fagna þegar áföngum er náð. Slíkt stuðlar að því að einstaklingar haldi áfram með hreyfingaráætlunina um ókomna framtíð.

Þegar krabbameinsmeðferð lýkur má halda áfram með sömu æfingaáætlun og þegar á meðferð stóð en eftir því sem þrek og þol einstaklingsins eykst má auka ákefð og lengd þjálfunar. Eins og alltaf er þó mikilvægt að hafa í huga hver á í hlut og hvaða krabbamein það var sem einstaklingurinn greindist með.

Höfundur greindist með krabbamein í eista árið 2000.

Steinar B.,
næringarfræðingur
www.steinarb.net

Þessi pistill er eign höfundar og má hvorki afrita hann né nota efni hans án leyfis.