Fara í efni

Fýla

Fýla er ekki sorg, leiði, depurð eða söknuður. Fýla er stjórntæki. Þegar við getum ekki tjáð tilfinningar okkar notum við fýlu.
Ferð þú oft í fýlu?
Ferð þú oft í fýlu?

Fýla er ekki sorg, leiði, depurð eða söknuður. Fýla er stjórntæki. Þegar við getum ekki tjáð tilfinningar okkar notum við fýlu.

Við notum fýlu til að segja á óbeinan hátt að okkur sé misboðið og/eða til að refsa. Við notum fýlu til að ná völdum og valda vanlíðan hjá þeim sem við erum ósátt við.

Með fýlu getum við stjórnað andrúmslofti, líðan og hegðun fólks á heimili eða vinnustað um lengri eða skemmri tíma.

Þegar við notum fýlu forðumst við augnsamband við þann sem fýlan beinist að, við hættum að tala og svörum ekki.

Fýla virkar yfirleitt eins og henni er ætlað. Sá sem fyrir henni verður upplifir mikla vanlíðan. Hann finnur til höfnunar, sektarkenndar eða reiði.

Fýla er andlegt ofbeldi og samskipti sem einkennast af því eru óheiðarleg og skemmandi fyrir alla. Fýla er lítilsvirðandi, jafnt fyrir þann sem fyrir henni verður og þann sem beitir henni.

Hinn kosturinn er að segja satt, tjá tilfinningar sínar á heiðarlegan hátt, segja hug sinn og koma óskum sínum í orð.

Hvað er svona hættulegt við það?

Ásta Kristrún Ólafsdóttir – Fjölskylduhús