Fara í efni

Beinvernd

Góð beinheilsa er ekki sjálfgefin, hún fellur ekki af himnum ofan. Margt hefur áhrif á beinþéttnina s.s. aldur, erfðir og sjúkdómar.
Beinþynning
Beinþynning

Góð beinheilsa er ekki sjálfgefin, hún  fellur ekki af himnum ofan. Margt hefur áhrif á beinþéttnina s.s. aldur, erfðir og sjúkdómar.

Hins vegar höfum við sterk vopn í hendi gegn beinþynningu, sem eru gott mataræði og hreyfing. Með þessum vopnum má viðhalda vöðvastyrk og beinþéttni og minnka líkur á byltum og beinbrotum. Gætum sérstaklega að því að fá nægilegt kalk og D-vítamín og daglega hreyfingu, og verum þess minnug, að hvert skref skiptir máli. Gott er t.d. að nota stigann en ekki lyftuna ef kostur er, leggjum bílnum þannig, að við þurfum að ganga aðeins til þess að komast á áfangastað, og notum ganglimina í allar styttri ferðir. Það er ábyrgð foreldra að huga að beinheilsu barnanna og eldra fólk gæti þurft aðstoð við að viðhalda beinheilsu sinni. Ráðin eru sem fyrr: Kalk, D-vítamín og hreyfing.

En hvers vegna þurfum við að huga svona vel að beinunum? Beinþynning er sjúkdómur í beinum sem veldur því að beinmassinn minnkar og misröðun verður í innri byggingu beinsins sem leiðir til aukinnar hættu á beinbrotum. Beinþynning á sér stað þegar beinmagnið minnkar hraðar en líkaminn endurnýjar það. Flest brot af völdum beinþynningar verða á framhandlegg, hryggjarliðum, rifjum og mjöðm og valda þau miklum verkjum, verulegri hreyfi- og færniskerðingu. Alvarlegustu beinbrotin þ.e. mjaðmarbrotin og stóru samfallsbrotin leiða ekki eingöngu til langrar sjúkrahúsvistar heldur minnka þau einnig lífslíkur. Á heimsvísu er talið að beinbrot af völdum beinþynningar verði á þriggja sekúndna fresti. Hér á landi verða á milli 1400 og 1500 beinbrot vegna beinþynningar á ári eða um þrjú til fjögur beinbrot á dag, þar af eru um 250 mjaðmarbrot, eða eitt brot alla virka daga ársins. Við miðjan aldur mun ein af  hverjum þremur konum og einn af hverjum fimm körlum brotna af völdum beinþynningar síðar á ævinni en áhættan eykst með auknum aldri.

aa

Beinvernd, félag áhugafólks um beinþynningu, leggur sitt af mörkum til að fræða landsmenn um mikilvægi heilbrigðara beina. Starfsemi félagsins felst fyrst og fremst í fræðslustarfi og nú fer í hönd metnaðarfullt vetrarstarf. Beinvernd heldur úti vefsíðu og Facebook síðu og er mikinn fróðleik að finna á þessum síðum. Félagið gefur út fréttabréf og nú er svo komið að þau eru rafræn og hægt er að skrá sig sem félaga í Beinvernd á vefsíðu félagsins og fá fréttabréfin send með tölvupósti félagsmönnum að kostnaðarlausu.

Síðastliðið haust gáfu íslenskir kúabændur Beinvernd nýjan, færanlegan beinþéttnimæli (ómtæki) að gjöf. Þessi mælir er hentugur til að mæla beinþéttni og kanna hvort ástæða sé til nánari greiningar sem gerð er með stærri og nákvæmari beinþéttnimæli,  svokölluðum DXA-mæli. Slíkir mælar eru til á Landspítalanum, Sjúkrahúsinu á Akureyri og hjá Hjartavernd.  Nú á haustdögum fer fyrirhugað verkefni með nýja ómmælinum í gang í samstarfi við heilsugæsluna í landinu. Beinvernd lánar mælinn í ákveðinn tíma og heilsugæslan getur boðið upp á beinþéttnimælingar og fræðslu um beinþynningu og forvarnir. Það er von félagsins að þessi nýi beinþéttnimælir  nái að fara hringferð um landið á næstu misserum. Einnig verður tækið notað í vísindarannsóknum á beinþynningu hér á landi. Þessi gjöf mun efla til muna forvarnarstarf gegn beinþynningu á landsvísu því mikilvægt er að greina sjúkdóminn í tíma, áður en fyrsta brot verður.

Þann 20. október ár hvert halda beinverndarfélög innan alþjóða beinverndarsamtakanna, International Osteoporosis Foundation IOF, upp á alþjóðlegan beinverndardag til að vekja fólk til vitundar um að beinþynning er heilsufarsvandamál sem ber að taka alvarlega.  Beinvernd er eitt af þessum beinverndarfélögum. Að þessu sinni verður athyglinni beint að körlum og beinþynningu.

Þekking er besta og sterkasta vopnið til að stuðla að breytingum. Með þekkingu á sjúkdómnum beinþynningu, forvörnum, greiningu og meðferð getum við stuðlað að því að draga úr ótímabærum beinbrotum sem skerða lífsgæði þeirra er fyrir þeim verða.