Fara í efni

Viðtalið - Sigurbjörg Hannesdóttir

Viðtalið - Sigurbjörg Hannesdóttir

Hún Sigurbjörg Hannesdóttir er menntaður iðjuþjálfi og starfar sem fræðslustjóri Alzheimersamtakanna. Við höfum hafið samstarf með samtökunum og birtum reglulega ýmsan fróðleik sem snýr að heilabilun, aðstandendum og fleira. Endilega fylgist með. 

Segðu okkur aðeins frá sjálfri þér:
Ég heiti Sigurbjörg Hannesdóttir og er Iðjuþjálfi. Gift Sigurþóri Gunnarssyni og saman eigum við 3 börn og 4 barnabörn. Er ættuð úr Hrútafirðinum en ávallt búið á höfuðborgarsvæðinu. Er stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík og lærði iðjuþjálfun í Esjberg í Danmörku og bjó í 7 ár erlendis. Ég er með diplómu í hugrænni atferlismeðferð frá Endurmenntun HÍ og í opinberri stjórnsýslu fyrir stjórnendur í heilbrigðisgeiranum frá Háskóla Íslands. Starfaði sem deildarstjóri iðjuþjálfunar á Hrafnistu heimilinum í tæpa 2 áratugi og hef einnig verið mjög virk í félagsstörfum Iðjuþjálfafélags Íslands, var varaformaður í nokkur ár og einnig í kjaranefnd. Ég er nýhætt sem formaður Öldrunarfræðafélags Íslands eftir 8 ára formennsku.

Við hvað starfar þú í dag?
Ég er fræðslustjóri Alzheimersamtakanna www.alzheimer.is

Sigurbjörn Hannesdóttir

Hver er þín helsta hreyfing?
Mín helsta hreyfing er að hlaupa eftir barnabörnunum og hafa gaman. Fer á gönguferðir um Ísland og reyni að ferðast eins mikið og mögulegt er.

Ertu dugleg að ferðast og áttu þér uppáhalds áfangastað?
Ég reyni að ferðast mikið um landið og minn uppáhalds landshluti er austurlandið og sér í lagi Eskifjörður sem er heimabær mannsins míns. Einnig er alltaf ljúft að koma á Snæfellsnesið og norður á Akureyri. Ítalía er í miklu uppáhaldi hjá mér yfir erlenda áfangastaði og við fyrsta tækifæri sem gefst eftir heimsfaraldur þá er stefnan tekin þangað. Er svo heppin að eiga mágkonu og fjölskyldu hennar sem er búsett í Vigevano og mikið tilefni til að heimsækja þau.

Sigurbjörn Hannesdóttir

Hver er þinn uppáhalds matur? 
Gott íslenskt lambalæri með tilheyrandi meðlæti. Einnig klikkar hreindýrasteik elduð ef eiginmanninum aldrei.

Er eitthvað sem þú átt alltaf til fyrir eldamennskuna?
Eiginmann minn, hann er nauðsynlegur í eldhúsið og ég er meira aðstoðarkokkur. Annars eigum við yfirleitt smjör og rjóma og góð krydd. Grænmeti úr garðinum og jarðaber og bláber.

Sigurbjörn Hannesdóttir

 Áttu þér uppáhalds veitingahús?
Þessa stundina er það Flatey pizza, Kol Restaurant og Mathöll Granda

Ert þú að lesa eitthvað þessa dagana og áttu þér uppáhalds bók?
Núna er á náttborðinu Eldarnir- ástin og aðrar hamfarir eftir Sigríði Hagalín Björnsdóttur. Uppáhalds bækurnar mínar eru spennubækur með rómantísku ívafi líkt og Kamilla Lackberg.

Á hvað ertu að hlusta þessa dagana? 
Ég hlusta mikið á Tinu Dickow, Ásgeir Trausta, Kahleo, Emelíu Torrini og Eyvör.

Sigurbjörn Hannesdóttir

Hver eru áhugamálin þín?
Áhugamál mín eru útivera og samvera með fjölskyldunni og vinum. Er svo heppin að eiga yndislega foreldar, systur og fjölskyldu sem ég eyði miklum tíma með. Einnig á ég marga góða vini og vinahópa sem ég nýt þess að eyða tíma með. Hef gaman af að ferðast erlendis bæði vegna vinnu og í frítíma. Við förum mikið út að sigla á bátnum okkar sem heitir Sibba og tökum þá fjölskylduna með. Förum á veiðar og njótum þess að fara með hjólhýsið okkar um landið.

Ef þú ætlar að „tríta“ þig sérlega vel hvað gerir þú? 
Uppáhaldstrítið mitt er sigling um sundin með manninum mínum á fallegu sumarkvöldi þegar sólin sest seint eða aldrei. Fylgjast með lundunum og fuglalífinu. Fátt fallegra og yndislegra en slíkar stundir. Kyrrðin er alger og tíminn gleymist. Einnig er samvera með börnum og barnabörnum í miklu uppáhaldi og þar ríkir gleðin við völd.

Sigurbjörn Hannesdóttir

Hvað segir þú við sjálfa/nn þig þegar þú þarft að takast á við stórt eða erfitt verkefni?
Alltaf spennandi að takast á við stórt verkefni og best er að hluta verkefnið niður í áfanga og byrja á byrjuninni. Ekkert er fast mótað strax og hlutirnir eiga til að breytast og þróast. Vera tilbúin að breyta af stefnunni ef þess er þörf og aðlaga verkefnið að aðstæðum.

Hvar sérð þú sjálfa  þig fyrir þér eftir 5 ár? 
Ég brenn mikið fyrir að vinna með og fyrir fólk með heilabilun og ég sé mig starfa á þessum vettvangi eftir 5 ár. Við verðum að opna umræðuna enn meir um heilabilun og virkja nærumhverfið í stuðning fyrir fólk með heilabilun og aðstandendur þeirra. Hvet alla til að skoða fræðsluverkefni samtakanna www.heilavinur.is. Vertu með, þín þátttaka skiptir öllu máli.

 Í lokin langar mig að biðja þig um eina uppskrift sem slær alltaf í gegn, má vera hvað sem er.
Fiskur í beikonsósu með bönunum er gömul og góð uppskrift sem systir mín sendi mér þegar ég bjó í Danmörku. Sló alltaf í gegn þar og gaman að hrista aðeins upp í Dönum sem eru einstaklega hefðbundnir í eldamennskunni. Mjög langt síðan ég hef eldað þessa uppskrift og verður án efa á matseðli vikunnar.

Text, letter

Description automatically generated