Fara í efni

VIÐTALIÐ: Lýður B. Skarphéðinsson eigandi Eins og fætur toga er sérfræðingur í göngu- og hlaupagreiningum

Hér segir hann Lýður okkur frá starfi sínu og fleiru skemmtilegu.
VIÐTALIÐ: Lýður B. Skarphéðinsson eigandi Eins og fætur toga er sérfræðingur í göngu- og hlaupagrein…

Hér segir hann Lýður okkur frá starfi sínu og fleiru skemmtilegu.

 

Fullt nafn: 

Lýður B. Skarphéðinsson

 

Segðu okkur aðeins frá sjálfum þér í stuttu máli og hvaðan ertu?

Ég er Hafnfirðingur, hálfgert íþrótta- og skónörd

Hvað ertu menntaður?

Ég er íþróttakennari frá Laugarvatni, Sérfræðingur í Footbalance innleggjum, lærði göngu- og hlaupagreiningar hjá Gísla Ferdinandssyni í kringum 2000 og hef þvælst um allan heim á fyrirlestra, námskeið og sýningar, allt tengt, göngugreiningum, skóm og fótum.

Hver eru þín helstu áhugamál?

Næstum alæta á íþróttir en fótbolti er í mestu uppáhaldi. Ég á þrjá stráka sem spila fótbolta með FH, Val og Álftanesi svo það er mikið rætt um knattspyrnu í fjölskyldunni.

Hefur þú stundað einhverjar íþróttir í gegnum tíðina?

Ég spilaði sjálfur handbolta og körfubolta til 17 ára aldurs og fótbolta með Haukum, Einherja og Tindastóli, var líka lengi að þjálfa knattspyrnufólk á öllum aldri.

Við hvað starfar þú í dag?

Ég er framkvæmdastjóri Eins Og Fætur Toga og sérfræðingur í göngu- og hlaupagreiningum.

Nú hefur þú nokkuð langa sögu er snýr að göngugreiningum og ráðgjöf um innlegg, hlaupaskó og búnað, segðu okkur aðeins frá upphafinu, og þá leið sem þú hefur farið þangað sem þú ert kominn í dag þar sem þú ert með verslunina „Eins og fætur toga“ ?

Ég var með heilsurækt á Sauðárkróki og var þar að selja hlaupaskó. Ég sá að með því að kynna mér allt um skóna myndi ég einfaldlega selja fleiri skópör. Kolbeinn Gíslason frá Gísla Ferdinandssyni  kom norður og var með göngugreiningar hjá mér í ræktinni, Kolbeini vantaði mann sem vissi eitthvað um skó og plataði mig til að koma suður og gerast verslunarstjóri í nýrri hlaupaverslun í Kringlunni. Í versluninni í Kringlunni var hlaupabretti og upptökuvél sem var notað til að velja réttan skóbúnað, eftir að hafa skoðað á fætur í heilt ár í versluninni  lærði ég göngu- og greiningar  af  Kolbeini. Fljótlega fór ég um allt land með göngugreiningar og hef gert það síðan.

Hefur orðið mikil breyting á hlaupamenningunni og þeim kröfum sem hlauparar og aðrir sem hreyfa sig mikið gera varðandi búnað?

Íslendingar eru þannig gerðir að þegar kemur að skóm þá velja þeir vandaða skó. Breytingin sem svo hefur orðið er að fólk er miklu meðvitaðra um hvað skór eru misjafnir og fólk veit að það getur fengið aðstoð hjá okkur við að velja skó eftir fótlagi og niðurstigi. Þeir sem koma í greiningu fá upplýsingar um skóbúnað sem hentar frá öllum helstu framleiðendum.

Hverjar eru helstu breytingarnar sem orðið hafa á ráðleggingum um skó á síðustu árum. Erum við enn að velta fyrir okkur utanfótarstyrkingum og innanfótarstyrkingum, sem og „nautral“ skóm eða erum við að horfa á aðra þætti?

Við erum ennþá að tala um hvort skórnir eigi að vera styrktir eða ekki, það sem hefur breyst er að við erum líka farin að tala um höggdempun og fjöðrun og svo hefur utanvega hlaupurum fjölgað mikið. Það sem skiptir líka miklu máli er að byrjendur hafa aðrar þarfir en þeir sem eru vanir. Þungir þurfa aðra skó en þeir sem eru léttir, þeir sem hlaupa langt þurfa annarskonar skó en þeir  sem hlaupa stutt o.sv. frv. Þess vegna þurfum við þó nokkuð af upplýsingum áður en við getum valið skó sem hentar hverjum og einum.

Hvað með upphækkanir í skó, er góð reynsla af því að hækka fólk upp sé það með annan fótlegginn styttri en hinn. Við hvaða mm-fjölda miðar þú þegar þú ákveður að hækka fólk upp eða ekki?

Það er mikilvægur þáttur í starfseminni að hækka undir annan fótinn. Mælingin er mikilvæg og þarf að skoða vel hvar mislengdin liggur. Okkur hefur tekist að hjálpa ótrúlegum fjölda fólks til betra lífs með innleggjum og vali á skóbúnaði fyrir vinnu og frístundir. Við tökum í kringum 5.000 manns í göngugreiningu á ári og búum til 3.000 innlegg.

Nú voruð þið þátttakendur í sýningunni Heilsa og Lífsstíll í Hörpunni á síðasta árí og á skráningarhátíð Reykjavíkur Maraþons, hverjar voru helstu spurningarnar sem þið voruð að svara varðandi skó og skóbúnað, fætur og hreyfingu?

Við vorum mest að tala við fólk um að velja skóbúnað sem hentar, einnig hvað sokkarnir skipta miklu máli. Við ræddum einnig við fólk um  þrýstifatnað og þrýstivörur (Compression) og einnig vörur fyrir endurheimt líkamans (Recovery).

Hver er besta bók sem þú hefur lesið og ertu að lesa eitthvað núna?

Þegar ég las Íslandsklukkuna eftir Halldór Laxnes í FG var ég með Gísla íslenskukennara sem gat komið okkur til að sjá nýjar víddir í bókmenntum og bókin hafði þónokkur áhrif á mig. Undanfarin ár hef ég lesið gríðarlegt magn af bæklingum, greinum og bókum tengt vinnuni og verð að viðurkenna að égt hef ekki lesið mikið annað undanfarin 15 ár.

Nefndu þrennt sem þú átt alltaf til í ísskápnum?

Ostur er alltaf til, skinka og......hmmm Pepsi Max

Hver er þinn uppáhaldsmatur?

Lambahryggur með öllu.

Ef þú ætlar að „tríta“ þig sérlega vel hvað gerir þú?

Mitt „trít“ er að spila golf erlendis í góðra vina hópi. Fer í World Class í Laugum, tek góðan pott eftir æfinguna og fæ mér eitthvað gott að borða á eftir ef ég þarf að endurnýja orkuna.

Hvað segir þú við sjálfa þig þegar þú þarft að takast á við stórt/erfitt verkefni?

Fresta þeim eins lengi og ég get en þegar ég neyðist til að byrja geri ég það yfirleitt af fullum krafti og stoppa helst ekki fyrr en ég er búinn.

Hvar sérð þú þig fyrir þér eftir 5 ár?

Fagmennska og góður rekstur geri það að verkum að við séum fyrirtækið sem kemur fyrst upp í hugann þegar kemur að göngugreiningum, öllu sem tengist hlaupum, þrýstivörum og vörum fyrir endurheimt eftir erfiði.