Fara í efni

Samskiptamiðlar og heimilislífið

Tækninni hefur fleygt hratt fram og haft verulegar breytingar í för með sér fyrir fólk. Það kemur til dæmis fram í tölvuog skjánotkun einstaklinga, sem hefur aukist töluvert á undanförnum misserum.
Samskiptamiðlar og heimilislífið

Tækninni hefur fleygt hratt fram og haft verulegar breytingar í för með sér fyrir fólk. Það kemur til dæmis fram í tölvuog skjánotkun einstaklinga, sem hefur aukist töluvert á undanförnum misserum.

Hröð tækniþróun og aukin notkun samfélagsmiðla hefur breytt því hvernig fólk hefur samskipti og tjáir sig. Börn eru engin undantekning þegar kemur að þessum breytingum. Tölvuleikir hafa að einhverju leyti leyst af hólmi hefðbundna leiki sem meðal annars fela í sér meiri hreyfingu, samveru og þörf fyrir ímyndunarafl. Börn sitja nú gjarnan mikið fyrir fram skjá þar sem tölvuleikir og samfélagsmiðlar spila stórt hlutverk.

Tölvuleikjaröskun

Á síðasta ári skilgreindi Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) tölvuleikjaröskun sem geðsjúkdóm. Tölvuleikjaröskun einkennist af eftirfarandi þáttum:

  • Lítil eða engin stjórn á tölvuleikjanotkun
  • Tölvuleikjanotkun er í vaxandi mæli tekin fram yfir önnur áhugamál og daglegar athafnir
  • Tölvuleikjanotkun eykst þrátt fyrir neikvæðar afleiðingar hennar

Svo virðist sem of mikil tölvu- og skjánotkun barna geti haft í för með sér ýmsar neikvæðar afleiðingar bæði á líkamlega og sálræna heilsu. Líkamlegar afleiðingar geta verið svefntruflanir, stoðkerfisverkir, höfuðverkir, aumir fingur og þurr augu. Sálræn einkenni koma oft fram sem depurð, kvíði, félagsleg einangrun, reiði og streita. Breytingar á atferli eru einnig þekktar eins og til dæmis minnkaður áhugi á námi og tómstundum og breyttar matar- og hreinlætisvenjur.

Fyrirmyndir

Það má gera ráð fyrir því að þegar hegðun og líðan barns breytist hafi það áhrif á aðra fjölskyldumeðlimi. Foreldrar geta fundið fyrir auknum pirringi hjá barni þegar reynt er að setja því mörk varðandi tölvu- og skjánotkun. Þá er mikilvægt að foreldrar horfist í augu við vandann og takist á við hann. En foreldrar eru stundum ráðþrota varðandi hvernig takast eigi á við vandann. Við bendum fólki á að skoða hann í stóru samhengi.

Þar sem foreldrar eru helsta fyrirmynd barna sinna ættu þeir að byrja því á að skoða eigið munstur varðandi tölvu- og skjánotkun. Það er auðvelt í lífsins amstri að taka sér hvíld með því að vafra um í símanum sínum eða í tölvu. Foreldrar ættu þó að vera meðvitaðir um þann tíma sem fer í það, hvort þeir séu að fara á mis við stund með barninu sínu og gera sér í hugarlund hvaða fordæmi þau eru að setja. Barnið hefur ef til vill frá einhverju merkilegu að segja en fær ekki rými til þess. Ef foreldrar leggjast yfir símann sinn má gera ráð fyrir því að barnið geri það sama og þá verður lítið úr samskiptum þeirra á milli.

Það læra börn sem fyrir þeim er haft, segir máltækið sem á vel við en foreldrar eru besta fyrirmynd barna sinna. Við erum helsta fyrirmynd barna okkar og þau taka gjarnan upp þá siði sem við höfum tamið okkur. Þannig að í ferlinu er mikilvægt að foreldrar tileinki sér tölvu- og skjánotkun á þann hátt sem þau vilja að börnin sín geri. Börn þrífast og nærast á athygli foreldra sinna. Það er því döpur sjón að sjá barn reyna að fanga athygli foreldris sem er fast í símanum og heyrir jafnvel ekki í barninu. Það er þó jákvætt að það hefur átt sér stað töluverð vitundarvakning í þessum efnum og virðast foreldrar og forráðamenn barna vera að verða meðvitaðri og gera sér betur grein fyrir ábyrgðarhlutverki sínu þegar kemur að því að sýna fordæmi varðandi tölvu- og skjánotkun.


Lykillinn að heilbrigðri skjánotkun er að það sé jafnvægi á milli skjánotkunar og annarra þátta í lífi fullorðinna og barna.


Jafnvægi daglegra athafna

Lykillinn að heilbrigðri skjánotkun er að það sé jafnvægi á milli skjánotkunar og annarra þátta í lífi fullorðinna og barna. Það er alfarið hlutverk þeirra fullorðnu að stýra sinni eigin notkun og notkun barna sinna. Mikilvægt er að gæta þess að börn og unglingar geri aðra hluti en að vera við skjá.

Íþróttaiðkun, tómstundir og samvera við foreldra hafa mikið forvarnargildi. Einnig er gott ef foreldrar setja upp ákveðnar reglur á heimilinu sem lúta að tölvu- og skjánotkun til að minnka hana hjá öllum fjölskyldumeðlimum.

Góðar reglur eru til dæmis að fjölskyldan borði saman kvöldmat án þess að skjáir séu við matarborðið. Þá gefst fjölskyldunni kostur á að spjalla saman og heyra hvað um er að vera hjá hvort öðru. Börn ættu að klára heimalærdóm áður en sest er við tölvu eða skjá. Við bendum fólki á að meina börnum sínum aðgang að tölvu eða skjá að minnsta kosti klukkustund fyrir svefn og eins getur verið gott að allir fjölskyldumeðlimir skilji símana sína eftir frammi áður en farið er að sofa. Hættan er sú að símarnir trufli svefn fólks, sem dæmi má nefna að einstaklingur sem rumskar að nóttu til gæti þótt freistandi að kíkja á símann sinn og áður en hann veit af er hann ef til vill búinn að vafra um á samfélagsmiðlum í klukkutíma.

Hættur internetsins

Það er góð regla að foreldrar og forráðamenn fylgist með notkun barna á internetinu og kenni þeim að umgangast það. Þar leynast ýmsar hættur og ef ekki eru gerðar ráðstafanir hafa þau óheftan aðgang að efni sem er óviðeigandi fyrir aldur þeirra og þroska. Hvað leiki varðar gera foreldrar sér oft ekki grein fyrir því að börnin þeirra eru jafnvel að spila leiki sem eru bannaðir fyrir þeirra aldur. Það er mjög mikilvægt að foreldrar skoði og fái nánari upplýsingar um þá leiki sem börnin þeirra eru að spila. Til eru ýmsar vefsíður þar sem hægt er að lesa sér til um tölvuleiki, sem dæmi um slíka má nefna http://www.esrb.org.


Mikilvægt er að börn og unglingar finni að þau geti rætt við foreldra sína um hvað er í lagi og hvað ekki í lagi á netinu.


Einelti getur átt sér stað á internetinu þar sem börn geta bæði verið gerendur og þolendur. Börn þurfa að vita að þau eiga og geta leitað til fullorðinna ef að slíkt á sér stað. Einnig gera börn og unglingar sér ekki alltaf grein fyrir því að myndir og orð sem sett eru á netið verða ekki auðveldlega tekin til baka. Það þarf því að kenna þeim að það skiptir máli að hugsa sig vel um áður en þau deila einhverju á netinu.

Mikilvægt er að útskýra fyrir börnum og unglingum hvers vegna foreldrar þurfa yfirsýn yfir hvað þau eru að gera á netinu. Þá þarf að gera þeim grein fyrir því að það er vegna þess að okkur er annt um þau en ekki vegna forvitni eða afskiptasemi.

Mikilvægt er að börn og unglingar finni að þau geti rætt við foreldra sína um hvað er í lagi og hvað ekki í lagi á netinu. Einnig er gott að foreldrar og börn verji tíma saman á netinu og spjalli um það sem þar er að sjá og gera.

Hollt að leiðast

Fyrir foreldra er mikilvægt að vara sig á meðvirkni sinni þegar tölvu- og skjánotkun barna er minnkuð en búast má við að börn reyni ýmislegt til að fá foreldra til að gefa eftir. Það er eðlilegt að foreldrum finnist erfitt að hlusta á barnið sitt segja að því leiðist eða að . . . LESA MEIRA