Fara í efni

VIÐTALIÐ: Kristín Linda sálfræðingur svarar mikilvægum spurningum er varða líðan á þessum árstíma, eftir hátíðarnar

Í tilefni af því að nýtt ár hefur hafið göngu sína þótti okkur hjá Heilsutorgi vert að taka viðtal við reynslumikinn sálfræðing og leggja fyrir hana spurningar um ýmislegt sem snýr að andlegri líðan á þessum árstíma. Ástíma þar sem segja má að hversdagsleikinn taki aftur við eftir eftirvæntingu, spenning og gleði, en jafnvel einnig kvíða fyrir hátíðunum, þeim tilfinningum sem þær gjarnan kveikja á og síðast en ekki síst, þess sem mörgum finnst að þær krefjist af okkur.
VIÐTALIÐ: Kristín Linda sálfræðingur svarar mikilvægum spurningum er varða líðan á þessum árstíma, e…

Í tilefni af því að nýtt ár hefur hafið göngu sína þótti okkur hjá Heilsutorgi vert að taka viðtal við reynslumikinn sálfræðing og leggja fyrir hana spurningar um ýmislegt sem snýr að andlegri líðan á þessum árstíma.

Árstíma þar sem segja má að hversdagsleikinn taki aftur við eftir eftirvæntingu, spenning og gleði, en jafnvel einnig kvíða fyrir hátíðunum, þeim tilfinningum sem þær gjarnan kveikja á og síðast en ekki síst, þess sem mörgum finnst að þær krefjist af okkur.

 

Fullt nafn:

Kristín Linda Jónsdóttir.

Segðu okkur aðeins frá sjálfri þér og hvaðan þú ert?

Ég er sveitastelpa úr Þingeyjarsýslu en núna borgardama í Reykjavík. Ég á þrjá magnaða syni og er heilluð af fólki og náttúru.

Menntun og við hvað starfar þú í dag?

Ég hef til dæmis starfað sem þjónn á Bautanum á Akureyri, þar lærði ég að búa til óviðjafnalega bernaisesósu. Svo var ég bankastarfsmaður um árabil og því næst blaðamaður. Þegar ég var 35 ára gerðist ég kúabóndi í Aðaldal og rak ásamt fyrrverandi manni mínum stórt kúabú sem var afar heillandi, mjög fjölbreytt en einnig krefjandi. Síðan lét ég gamlan draum rætast og hóf háskólanám, fyrst við Háskólann á Akureyri og síðan við Háskóla Íslands. Í dag er ég starfandi klínískur sálfræðingur með eigin sálfræðistofu, Huglind ehf, sem ég rek í Orange húsinu að Ármúla 4.

Hver eru þín helstu áhugamál fyrir utan að vera ritstjóri tímaritsins Húsfreyjunnar?

Ég hef starfað sem ritstjóri Húsfreyjunnar, tímarits Kvenfélagasambands Íslands í 13 ár og það er í senn vinna og áhugamál. Ég var sjálf kvenfélagskona í Kvenfélagi Aðaldæla þegar ég bjó þar í 15 ár og veit hvað kvenfélögin, sem eru sjálfboðaliðasamtök, gera mikið gagn í samfélaginu. Húsfreyjan, sem ber undirtitilinn jákvæð og hvetjandi, hefur gefið mér ótal tækifæri til að hitt klárar, flottar og góðar konur og tækifæri til að vekja athygli á verkum kvenna.

Ég hef víðfeman áhuga á fólki og nýt mín í ýmiskonar félagslífi. Svo sækir sveitastelpan í mér út í náttúruna og þá vil ég vera neðan 500 metra og njóta fuglalífs, blóma og annars gróðurs fremur en að príla á fjallatoppa upp urð og grjót. Ég nýt listar og handverks, sæki ýmiskonar tónleika og læt mig aldrei vanta á Handverkssýningar, allavega ekki í Hrafnagili í Eyjafjarðarsveit. Svo finnst mér líka voða gaman að elda góðan mat svona við og við.

Stundar þú einhverja heilsurækt og átt þú kannski einhvern bakgrunn í íþróttum ?

Ég  stunda gönguferðir og hef til dæmis gengið hluta af Jakobsveginum á  Spáni, eina 330 kílómetra og nokkrar leiðir á Íslandi. Í amstri dagsins er Úlfarsfell vinur minn, fljótlegt að komst þangað og hægt að ganga mismunandi leiðir og í sumar ætla ég að fara í gönguferð í Austurríki. Svo syndi ég helst 15 sinnum í mánuði, já, ég tel skiptin. Syndi af gleði, rósemd og mildi en ekki streitu og offorsi, mér til heilsubótar og til að bæta líðan.

Segðu okkur aðeins frá þinni upplifun á því hvernig líðan margra er að loknum hátíðunum núna í upphafi ársins þegar hversdagsleikinn tekur við?

Núna þegar janúar hefst er dimmasti tími ársins hér á landi enn við líði. Þetta er sá tími sem margir eru í raun orku minnstir, enda búum við við heimskautsbaug. Fólk er oft nokkuð dasað eftir jólin, einskonar spennufall í gangi. Sumir er fegnir að þau eru búin aðrir finna fyrir óróleika og tómi. Jólastandið er jú búið að taka huga margar og vera ríkjandi í fjölmiðlum og í samfélaginu frá því um miðjan nóvember svo það er nokkur breyting þegar hversdagarnir í janúar taka við.

Í byrjun janúar upplifa svo margir aðra pressu og ekkert kannski minni en desember pressuna, bara öðruvísi. Nú skal sko taka á því og breyta eigin líkama til betri vegar með hreyfingu, breyttu  mataræði og öðru slíku. Auðvitað er mikilvægt fyrir okkur öll að hreyfa okkur og ótal rannsóknir sýna hvað það er gott bæði fyrir líkama og sál. Eins þurfum við að næra okkur af skynsemi með góðum mat og viðeigandi bætiefnum, til dæmis þurfum við D- vítamín á þessum árstíma.

Gætum þess að láta ekki markaðssetninguna í janúar ýta okkur í einhverskonar átök sem passa ekki fyrir okkur. Munum núna eins og alltaf, hver við erum og hvað passar okkur. Gætum þess að velja sjálf hvaða hreyfing færir þér gleði, góða tilfinningu og heilsu bæði líkamlega, sálrænt og félagslega. Heilsusamlegur lífsstíl á ekki að vera kvöð, kvöl, stress eða álag, hann á að vera eðlilegur, notalegur og gefandi, þá fyrst virkilega stendur hann undir nafni sem heilsusamlegur.

Áramótaheit, hvaða skoðun / reynslu hefur þú af þeim, eru þau af hinu góða að þínu mati?

Ég held að það sé snjallt fyrir okkur sem búum á Íslandi að fara yfir okkar eigin stefnuskrá þrisvar á ári, það hefur reynst mér frábærlega. Hvernig viltu nýta tímann frá því um áramót og til loka maí til að bæta þig og þitt líf. Hverju viltu breyta, þarftu að bæta hvíldarstundum inn í hversdaginn, passa svefninn betur? Viltu læra að nota fimm nýjar matartegundir? Langar þig til að eiga fleiri einkastundir, eða hitta fleira fólk? Viltu taka frá tíma í eitthvað ákveðið áhugamál, eða hætta einhverju sem ekki passar þér lengur.

Svo er snjallt að endurmeta stöðuna í lok maí og hugsa þá hið sama um sumarmánuðina, hvernig langar þig til að nýta þá til að bæta þig og þitt líf.

Í september er svo kjörið að skoða haustönnina, tímann fram að áramótum.

Mér finnst skemmtilegra og betra fyrir flesta að móta stefnuskrá um það sem stefnt skal að heldur en að setja upp heit, en við erum mismunandi og sú leið getur alveg hentað sumum.

Hvaða ráð gefur þú þeim sem vilja setja sér markmið fyrir árið 2017?

Ég held að það sé mikilvægt að skrifa niður sínar áætlanir, stefnuskrár eða heit, fyrir sig, það skiptir mestu. Móta áætlunina í orð og gera sér virkilega grein fyrir henni. Skoða hana svo við og við á markvissan hátt. Minna sig á, endurmeta og endurbæta, eiga svona smá fund með sjálfum sér til dæmis vikulega eða mánaðarlega eftir því hvað við á. En svo er líka gaman að fá einhvern í lið með sér og deila hugðarefnunum.

Hvaða ráð gefur þú þeim sem eru verulega þungir andlega í janúar þegar hversdagsleikinn tekur við? Mælir þú með að þeir leiti sér hjálpar strax?

Þegar okkur líður illa ættum við alltaf að gera eitthvað í því. Fyrsta stig er að gera eitthvað sjálf, hlúa að okkur og gera það sem er okkur gott, styrkjandi og styðjandi. Annað stig er að leita virkilega til fólksins okkar, þeirra sem standa okkur næst. Þriðja stig er að leita sér faglegrar hjálpar, endilega ekki hika við það, stundum þurfum við að leita hjálpar hjá lögfræðingi, stundum tannlækni og stundum sálfræðingi. Það hjálpar að fá hjálp og þú er dýrmætur einstaklingur og átt það algjörlega skilið!

Hvaða ráð áttu handa fólki núna í skammdeginu?

Við ættum öll virkilega að vakta eigin svefntíma. Sofa eftir klukku, flestum passar best að sofa í átta tíma. Sumir þurfa virkilega á hvíldarstund síðdegis að halda til viðbótar við svefntímann. Hvíldarstund í 30 mínútur getur virkað eins og algjör orku- og gleðihleðsla sem breytir lífi fólks til betri vegar.

Endilega ekki hætta fyrr en þú finnur hreyfingu sem veitist þér létt. Þá á ég ekki við að þú ættir ekki að mæðast eða svitna, heldur að þér finnist andlega gott, notaleg og létt að leggja stund á hreyfinguna þína. Þá verður hún bara svo góð og ekkert mál og virkilega bætir líkamlega og sálræna heilsu þína.

Það er eins með næringuna, ekki satt! Ekki hætta fyrr en þú finnur mat sem virkilega nærir þig, er þér góður og skapar vellíðan.

Í skammdeginu er snjallt að skoða tæknibúnað sem bætir líðan. Svo sem eins og dagsbirtulampa, vekjaraklukkur sem kveikja ljós áður en þú vaknar svo þú vaknar í birtu þeirra. Nota höfðuljós í útivist, nota endurskinsmerki og almennt að lýsa upp myrkrið.

Nefndu þrennt sem þú átt alltaf til í ísskápnum?

Kannski ekki beint í ísskápnum, en ég hef komist að því að Chiafræ með bláberjum eru mér góð. Líka lambakjöt, íslenskt nautakjöt, lax, þorskur, gulrætur, rófur og spergilkál, svona til dæmis.

Hver er þinn uppáhalds matsölustaður?

Ég reyni meðvitað að lifa fjölbreyttu lífi og festast ekki í hjólförum, sem sagt vera tilbúin til að sækja nýja staði, hvort sem er matsölustaði eða gönguleiðir. Ég sæki í staði þar sem kjöt, fiskur og grænmeti er í boði þannig að pizzu, brauð, samloku og pastastaðir duga ekki fyrir mig.

Ert þú að lesa eitthvað þessa dagana og hver er besta bók sem þú hefur lesið?

Ég er lestrarhestur og yfirleitt að lesa í einu bæði einhverskonar fræðibók á mínu sviði, skáldsögu eða lífsreynslusögu og tímarit. Ég vel skáldsögur sem styðja jákvæðar og notalegar tilfinningar og les því til dæmis ekki glæpasögur.

Hvernig er draumadagurinn þinn?

Góður dagur byrjar með gönguferð um gróið land meðfram vatni, á eða læk þar sem ég nýt gróðurs og fuglasöngs gjarnan á nýjum slóðum þar sem ég hef ekki komið áður. Síðan fer ég í sund, teygi vel úr mér í lauginni og slaka á í heitu pottunum. Hitti svo þá sem ég elska mest eða annað fólk og skoða eitthvað skemmtilegt, list, handverk eða menningu. Tek myndir, skapa eitthvað með orðum eða elda góðan mat af gleði svona sem dæmi.

Svo er gott að muna að þó að það sé ekki allt fullkomið í samfélaginu okkar er stór gjöf að geta kúrt í góðu rúmi undir notalegri sæng þegar nóttin færist nær. Frjáls kona í frjálsu landi þar sem ekki geysa stríð eða hungursneið og að eiga í hjarta sér auðmýkt og þakklæti til að taka eftir því, fagna því.

Hvað segir þú við sjálfa þig þegar þú þarft að takast á við stórt/erfitt verkefni?

Viltu það eða ekki? Ef svarið er já, byrjaðu þá og njóttu hverrar stundar!