Fara í efni

Hver er maðurinn ?

Kjartan Hrafn Loftsson
Kjartan Hrafn Loftsson
Kjartan Hrafn Loftsson

Segðu okkur aðeins frá sjálfum þér og hvaðan ert þú ?

Ég er fæddur og uppalinn í Reykjavík og síðar Álftanesi. Alltaf verið mikið fyrir útiveru og íþróttir, æfði fótbólta, körfubolta, dans, og skíði og lærði á píanó. Í minningunni var mikið um allskonar útileiki þegar ég var ungur og við vorum alltaf á hjóli. Í dag er ég giftur Teklu Hrund Karlsdóttur lækni, og við eigum fimm börn á aldrinum 3ja til 9 ára. Síðustu 5 ár höfum við búið í Svíþjóð en þó með stoppum á Íslandi. Okkur leið mjög vel í Svíþjóð og höfðum hugsað okkur að vera lengur þar en það er strembið þegar öll fjölskyldan er á Íslandi. Því ákvaðum við síðasta sumar að flytja aftur til Íslands og skjóta hér rótum með litlu en fjölmennu fjölskyldunni okkar.

Menntun og við hvað starfar þú í dag ?

Ég er læknir og starfa á heilsugæslu Grafarvogs. Síðustu árin í Svíþjóð hef ég verið í sérnámi í heimilislækningum og stefni á að klára það nám hér á Íslandi.

Hver eru þín helstu áhugamál og átt þú bakgrunn í íþróttum ?

Helstu áhugamál mín eru tónlist, útivera (hvers kyns) og fjölskyldan. Þá verð ég einnig að nefna mataræði, matargerð, næring og heilsa, en þessi atriði hafa orðið meira spennandi eftir að við hjónin sökktum okkur í lestur og fyrirlestraáhorf um áhrif á mataræðis á heilsuna. Við erum bæði læknismenntuð en mikið svakalega kom þessi vitneskja okkur í opna skjöldu. Það hefur víst heilmikið að segja hvað við setjum ofan í okkur og ekki eru allir á eitt sáttir við gildandi ráðleggingar um hvað sé besta mataræðið og fyrir hvern.

Hvaða tegund af heilsurækt stundar þú?

Dagleg hreyfing í formi þess að sjá um börnin og heimilið. Annars stunda ég enga heilsurækt að staðaldri.

Hvernig kemur þú að Foodloose ráðstefnunni?

Ég kem að Foodloose í gegnum Guðmund Frey lyf- og bráðalækni. Það kom í ljós að við höfðum báðir byrjað að sökkva okkur ofan í áhrif mismunandi næringarefna á líkamann. Við fórum að spjalla í gegnum fésbók og ákváðum að stofna grúppu fyrir íslenska lækna sem hafa áhuga á mataræði og næringarfræði og tengingu við sjúkdóma. Þessi hópur er nú farinn að telja hátt í 300 manns sem er ansi stór hópur íslenskra lækna, þó að fólk sé mismikið virkt. Varðandi ráðstefnuna þá hef ég fengið að fylgjast með þróuninni allt frá því í snemma árs 2015 og er varamaður í stjórn, tilbúinn í slaginn ef einhver meiðist.

Hvað getur þú sagt um fyrirlesarana ?

Fyrirlesarar á hátíðinni eru heimþekktir og má segja brautryðjendur í þessum fræðum. Skemmtileg og aðeins öðruvísi blanda af fyrirlesurum sem eru ekki endilega alveg sammála, enda er ekki komin endanleg niðurstaða varðandi stóru spurninguna: hvað er besta mataræðið! Því verður mjög gaman að sjá hvernig samspilið verður á milli þeirra síðustu lotunni þar sem þau sitja saman fyrir svörum.

Nefndu þrennt sem þú átt alltaf til í ísskápnum ?

Rjóma, smjör og gríska jógúrt.

Hver er þinn uppáhalds matur & matsölustaður ?

Íslenskt lambakjöt (eða grasalið nautakjöt), sósa og rótargrænmeti. Við borðum oft á Gló eða sækjum mat þaðan.

Ert þú að lesa eitthvað þessa dagana og hver er besta bók sem þú hefur lesið ?

Ég er með Good Calories, Bad Calories eftir Gary Taubes í gangi núna, en það reynist lítill tími til lesturs því miður. Besta bókin er Diabetes Epidemic and You eftir Joseph Kraft, því hún setti svo margt í samhengi af því sem ég hafði verið að lesa og skoða áður.

Ef þú ætlar að „tríta“ þig sérlega vel hvað gerir þú ?

Þá reynum við hjónin að fá pössun og skjótumst á kaffihús.

Hvað segir þú við sjálfa þig þegar þú þarft að takast á við stórt/erfitt verkefni ?

Ég veit það ekki, líklega reyni að setja hlutina í samhengi við hversu mikilvægt er að skilaboðin komist áleiðis.

Hvað er í gangi hjá þér núna?

Fyrir utan vinnu og heimili, stofnuðum við Tekla fésbókarsíðu fyrir nokkrum vikum sem heitir Með mat, og þar eru fyrstu skrefin okkar tekin í að koma gagnlegum upplýsingum til allra sem hafa áhuga. Heilsusamlegt mataræði barna verður í brennidepli þar sem við reynum að koma með hjálpleg ráð og upplýsingar til foreldra, en þó slæðast inn rannsóknaniðurstöður og ýmis fróðleikur fyrir fullorðna líka. Markmiðið er að reyna hafa áhrif á mataræði barna í leikskólum, skólum og heima fyrir. Í hnotskurn erum við að koma alvöru mat á borðið og fjarlægja sykur og einföld, unnin kolvetni. 

Hvar sérð þú sjálfan þig fyrir þér eftir 5 ár ?

Þá verð ég búinn að demba mér enn meira í að meðhöndla lífsstílstengda sjúkdóma og forvarnir. Við hjónin höfum líka mikinn áhuga á að koma af stað alvöru heimasíðu tengda lífsstíl og vera með puttan á púlsinum í heimi vísindanna í kringum mataræði og heilsu.