Fara í efni

Ættir þú að borða fyrir morgunæfinguna?

Ættir þú að borða fyrir morgunæfinguna?

Svarið er JÁ. Ég las pistil á veraldarvefnum þar sem því var haldið fram að með því að sleppa því að borða fyrir morgunæfingu, þá myndir brenna 20% meira, án þess að matarlystin yfir daginn mundi aukast. Þessi blaðamennska fer alveg ótrúlega í taugarnar á mér. Þegar einhver sem lítið vit hefur á þjálfun og heilsu getur þrykkt í svona pistil og birt fyrir framan alþjóð, þá þarf sá hinn sami eða ritstjórnin að fara í alvarlega naflaskoðun, enda er þessi miðill þekktur fyrir að birta skyndilausnir og „non-sense approach“ lausnir varðandi þjálfun og heilsu.

Dokum aðeins við og köfum aðeins dýpra í það afhverju þú ættir að borða fyrir æfingar, hvort sem það er morgunæfing eða æfing eftir vinnu. Ég ætla að setja þessar upplýsingar upp á einfaldan hátt svo auðvelt er að skilja.

Að æfa svangur brennir ekki meiri fitu.
Á einfaldan hátt þá brennir þú orku sem er í „geymslu“ í vöðvunum þegar þú æfir á fastandi maga. Þessa orku notar þú sem bensín á æfinguna þína og þetta er alls ekki besta orkan til að ná árangri. Líkaminn leitar í þessa orku vegna þess að það er ekki orka til staðar í líkamanum til þess að nota, eins og til dæmis á morgunæfingum þegar líkaminn er að koma úr 10-12 tíma „svelti“. Fitan sem þú vilt losna við (rass, læri, kviður, o.fl) verður ekki fyrir barðinu á þessari fitubrennslu og þú brennir því ekki þeirri fitu sem þú vilt losna við. Hver er því ávinningurinn?

Í grein sem birtist birsti í Strength and Conditioning Journal, sýndi rannsókn fram á það að það að líkami hjá fólki var að brenna svipuðu magni af fitu, hvort sem það borðaði eða ekki fyrir æfingu. Er það þess virði að æfa svangur, orkulaus og næla sér í eitt stykki drulluslappa æfingu?

Vöðvamassi getur minnkað með því að æfa á fastandi maga
Þegar líkami okkar er tómur af kolvetnum og annarri orku sem hann notar við æfingar, mun hann nýta prótein úr vöðvum sem orku. Það sem verra er að ef þú æfir á fastandi maga á morgnana þá gætir þú tapað í efnaskipta-lóttóinu ásamt því að tapa vöðvamassa. Þannig ávinningurinn við það að æfa á fastandi maga á morgnana er mögulega minnkaður vöðvamassi og hægari efnaskipti sem þar af leiðandi hafa neikvæð áhrif á fitubrennluna.

Athugið að þetta gerist ekki ef þú slysast einu sinni eða tvisvar í ræktina án þess að borða, heldur langvarandi áhrif síendurtekinnar hegðunar.

Æfingar á fastandi maga draga úr orku á æfingum og ákefð minnkar.
Ef líkaminn er tómur af orku, þá færðu ekki mikið útúr æfingunni. Til að ná árangri, léttast, styrkjast og brenna fitu, þá þarf æfingin að vera framkvæmd á hárri ákefð. Ekki skemmir fyrir að puða með virkilega krefjandi þyngdir. Það mundi enginn hæfur þjálfari mæla með því að stunda styrktarþjálfun, án þess að orka sé til staðar.

Hvað „græðir“ þú á því að næra þig fyrir æfingu?
Líkaminn verður fljótari að jafna sig eftir erfiða æfingu og meiri möguleiki er á stöðugri styrktaraukningu og langvarandi árangri.

Þú getur æft oftar.
Æfingarnar geta innihaldið meiri ákefð í lengri tíma í senn.

Minni hætta á blóðsykursfalli, sem getur valdið höfuðverk, ógleði og/eða svima.

Meiri vellíðan á æfingu. Ég get ekki ímyndað mér að þeir einstaklingar sem ætla að taka almennilega á því, vilji vera svangir við þá iðju.

Þetta eru aðeins nokkur dæmi um ávinnig þess að næra sig fyrir æfingu. Ef þú ert að leita að langvarandi árangri á sviði heilsu og þjálfunar, þá mæli ég með því að þú nærir þig reglulega yfir daginn, án allra öfga og skyndilausna. Þetta snýst allt um stöðugleika.

Vilhjálmur Steinarsson Þjálfari

Menntun:

Íþróttafræðingur B.Sc frá Háskólanum í Reykjavík