Fara í efni

Næstkomandi sunnudag, þann 10. september er alþjóðlegur dagur sjálfsvíga

Tökum þátt!
Næstkomandi sunnudag, þann 10. september er alþjóðlegur dagur sjálfsvíga

Þá mun fyrrum Íslandsmeistari í áhaldafimleikum Margrét Hulda Karlsdóttir klára hringferð í kringum landið, þar sem hún hefur vakið athygli á aðstæðum á geðdeild með því að ganga á höndum hringinn í hringum Ísland.

Fimleikasambandið ætlar að sameinast í þessari vitundarvakningu með Margréti og ætlum við að fá fimleikafólk víðsvegar af höfuðborgarsvæðinu til að ganga með henni á höndum í Hljómskálagarðinum á sunnudaginn kl. 12:00. Þar með mun hún enda hringferð sína á alþjóðlegum forvarnardegi sjálfsvíga. Öllum er boðið að taka þátt í göngunni og fer í loftið viðburður á Facebook á næstu tímum þegar frekari dagskrá er staðfest.

Þess vegna viljum við biðja þig og alla í þínu félagi til að koma kl. 12 á sunnudag í Hljómskálagarðinn og ganga með okkur á höndum!

Lúðrasveit eða trommusveit mun líklegast leiða hópinn og verður hún mynduð með dróna. Síðar um kvöldið er Geðhjálp með kyrrðarstund í Dómkirkjunni kl. 20:00.

Hafið þið áhuga á að koma og fylgja okkur þessi síðustu skref og vekja með okkur athygli á þessu mikilvæga málefni og í leiðinni að vekja athygli á hversu mikilvægt er fyrir fólk að leita sér aðstoðar við andlegri vanlíðan á alþjóðlegum forvarnardegi sjálfsvíga á þennan jákvæða hátt?

RÚV mun líklegast mæta og taka þetta upp og sýna í fréttatímanum!

Hlökkum til að sjá ykkur á hvolfi á sunnudaginn!