Fara í efni

Er leiðin greið? Málþing um aðgengi og aðferðafræði algildrar hönnunar

Málþing um aðgengi og aðferðafræði algildrar hönnunar.
Er leiðin greið? Málþing um aðgengi og aðferðafræði algildrar hönnunar

Öryrkjabandalag Íslands, ásamt Blindrafélaginu, Verkís hf. og Átaki – félagi fólks með þroskahömlun, býður til málþings um aðferðarfræði algildrar hönnunar.

Málþingið er haldið í samvinnu við Ferðamálastofu, Mannvirkjastofnun og Vegagerðina.

Tími: föstudagurinn 10. mars, kl. 9:00-12:30

Staður: Grand hótel

Skráning: www.obi.is fyrir 3. mars

Það skiptir alla máli að gengið sé út frá aðferðafræði algildrar hönnunar við framkvæmdir í samfélaginu. Aðgengi er mikilvægt öllum og ótækt annað en að allar leiðir séu öllum greiðar.

Á málþinginu verður fjallað um aðgengismál utandyra, innan bæjarfélaga og á ferðamannastöðum. Hvar erum við stödd í dag og hvert stefnum við?

Áhersla verður lögð á staðla og reglugerðarumhverfi á Íslandi og það borið saman við önnur ríki á Norðurlöndum.  Kynntar verða niðurstöður  rannsóknarverkefnis um þetta efni sem unnið var með stuðningi Verkís og Vegagerðarinnar.

Bent verður á leiðir til að hanna götur og torg út frá algildri hönnun með hliðsjón af þörfum fatlaðs fólks. Kynntar verða nýjar leiðbeiningar sem ÖBÍ gefur út.

Brugðið verður ljósi á stöðu aðgengismála á ferðamannastöðum á Íslandi. Sagt verður frá niðurstöðum úr ferð aðgengishóps Átaks – félags fólks með þroskahömlun, sem birtar voru í nýlegri skýrslu.

Fulltrúar frá Ferðamálastofu, Mannvirkjastofnun og Vegagerðinni halda einnig erindi á málþinginu.

Málþingið er ókeypis og öllum opið. Boðið verður upp á veitingar í hádeginu.

Skráning og dagskrá: www.obi.is

Rit- og táknmálstúlkun er í boði – óska þarf eftir túlkun við skráningu á málþingið.