Fara í efni

Ómótstæðileg hindberjaterta frá mæðgunum

Ómótstæðileg hindberjaterta frá mæðgunum

Stundum er smá dekur bara alveg nauðsynlegt. Og hvað er betra á slíkri stundu en ómótstæðileg hindberjaterta? 

Mmmm... mjúkt hindberjakrem, karamella, súkkulaði og fersk ber...

Eins og sannir sælkerar eigum við erfitt með að standast gómsætar tertur. 
Þegar við útbúum tertur notum við oftast aðferðir sem eiga uppruna sinn að rekja til hráfæðis. Það sem heillar okkur sérstaklega við þessa aðferð er hversu auðveld framkvæmdin er. Í hráfæðikökugerð þarf yfirleitt bara að mauka hráefnið í matvinnsluvél, þjappa í form og kæla. Það er nú allur galdurinn. 

Hindberjatertan ómótstæðilega er virkilega ljúffeng, og svo er hún líka falleg og sómir sér vel á veisluborðinu, í kaffiboði og saumaklúbbnum. Tertan geymist vel í frysti, því er upplagt að útbúa hana með góðum fyrirvara. 

Svo er alltaf gaman að eiga góða tertu í frystinum, ef gesti ber að garði. Ef þið viljið taka eina og eina sneið út í einu er sniðugt að skera tertuna í passlegar sneiðar áður en hún er fryst, þá er auðvelt að gæða sér á einni sneið með sunnudagskaffinu, án þess að afþýða alla kökuna. 

Langbest er að nota form sem hægt er að smella frá á hliðinni, eins og þetta hér:

 

Okkur finnst mjög gaman að gera munstur í efsta lagið:

 

Hindberjatertan ómótstæðilega er saðsöm. Við njótum þess að gæða okkur á einni sneið í rólegheitum, ein sneið fullnægir sætindaþörfinni algerlega og við þurfum ekki meir.

Hindberjaterta með karamellu og súkkulaði

Botninn

3 dl döðlur
3 dl kókosflögur, þurrristaðar
3 msk kakóduft
1 msk kókosolía, fljótandi
¼ tsk sjávarsaltflögur
1-2 msk vatn

  1. Setjið allt hráefnið í matvinnsluvél og blandið saman þar til það myndar klístrað deig.
  2. Þjappið niður í lausbotna form (u.þ.b. 23 cm í þvermál).
  3. Geymið inn í frysti á meðan fyllingin er útbúin.

Hindberjafylling

5 dl frosin hindber (látið þiðna yfir nótt í kæli)
2 ½ dl kasjúhnetur, lagðar í bleyti í 2 klst (gerir 3 dl útbleyttar hnetur)
1 dl hlynsíróp eða önnur sæta
1 tsk vanilluduft
1/8 tsk sjávarsalt
1 ½ dl kaldpressuð kókosolía

  1. Takið hindberin út úr frystinum kvöldið áður og látið þiðna, t.d. inni í ísskáp.
  2. Setjið þiðin hindberin í blandara og blandið þar til þau verða að mauki. 
  3. Hellið vatninu af kasjúhnetunum og setjið þær út í hindberjamaukið í blandaranum, ásamt hlynsírópi, vanillu og salti og blandið þar til blandan er orðin silkimjúk og fín.
  4. Bætið kókosolíunni út í og klárið að blanda.
  5. Setjið fyllinguna ofan á botninn og setjið kökuna inn í frysti svo hún stífni áður en þið setjið karamelluna út á.

Karamella

3 msk möndlusmjör
1/3 dl kókosolía
½ dl sæta, t.d. hlynsíróp
1 tsk sjávarsalt

  1. Setjið allt hráefnið í blandara og blandið vel saman.
  2. Látið stífna inni í ísskáp í 15 mínútur.
  3. Hellið í kökuformið, yfir hindberjafyllinguna. 

Súkkulaði 

50g (½ plata) 70% lífrænt og fairtrade súkkulaði

  1. Bræðið súkkulaðið yfir vatnsbaði.
  2. Látið kólna aðeins, en ekki stífna.
  3. Setjið rendur eða punkta ofan á karamelluna og notið tannstöngul til að dreifa úr og gera skemmtilegt munstur.
  4. Látið kökuna inn í kæli/frysti til að stífna.
  5. Tertan geymist best í frysti, ef ekki á að bera hana fram samdægurs.
  6. Ef kakan er geymd í frysti er gott að láta hana mýkjast við stofuhita í 10 mín. áður en þið skerið og berið fram.
  7. Ef kakan er geymd í kæli er hægt að taka hana beint út og bera fram.
  8. Mjög fallegt er að skreyta tertuna með ferskum berjum eða ávöxtum.

 

Njótið hvers bita!

Uppskrift af vef maedgurnar.is