Fara í efni

Lax með papriku og ­heslihnetusalsa

Passið að eyðileggja ekki grillrendurnar í laxinum
Passið að eyðileggja ekki grillrendurnar í laxinum

Réttur fyrir 4

4 stk laxabitar um 200 g hver – hægt að nota silung
2 msk ólífuolía
salt og nýmalaður svartur pipar
Salsa:
2 stk rauðar paprikur
6 msk ólífuolía
15 g heslihnetur
15 g graslaukur, fínt saxaður
1 stk hvítlauksrif, pressað
rifið hýði af einni límónu
2 msk eplaedik
salt eftir smekk

Papriku og ­heslihnetusalsa:
 
Fyrst er salsað gert. Ofninn er hitaður í 200°C. Paprikurnar eru skornar í 4 bita og fræin fjarlægð. Því næst eru þær settar á bökunarplötu, skvett yfir 2 msk af ólífuolíu og góðri ¼ tsk af salti stráð yfir. Paprikurnar eru ristaðar í ofninum í 20 mínútur eða þangað til þær eru gegnum eldaðar og létt brenndar. Setjið paprikurnar í skál og plastfilmu yfir. Geymið einnig grillsafann. Ristið heslihneturnar í ofni á bökunarplötu í 10 mínútur, eða þangað til þær brúnast aðeins. (Hægt að gera þetta með paprikunni). Leyfið hnetunum að kólna og fjarlægið af þeim skinnið með því að rúlla þeim saman í lófunum. Hneturnar eru síðan grófsaxaðar. Þegar paprikan hefur kólnað, fjarlægið af henni skinnið og skerið í 5 mm teninga. Blandið öllu saman, smakkið til og bætið við pipar og salti eftir smekk.

Lax:
 
Setjið grillpönnu á helluna og stillið á hæsta hita og skiljið hana eftir þar í nokkrar mínútur og leyfið henni að hitna. Pannan þarf að vera mjög heit! Hafið ofnplötu með bökunarpappír á tilbúna. Penslið laxastykkin með ólífuolíu og stráið yfir salti og pipar eftir smekk. Setjið laxastykkin á heita pönnuna með roðið upp í 3 mínútur. Notið fiskispaða og færið laxastykkin varlega yfir á ofnplötuna með roðið niður. Passið að eyðileggja ekki grillrendurnar á laxinum við flutninginn. Bakið síðan laxinn í ofni í 5–8 mínútur eða þangað til fiskurinn er rétt tilbúinn, ljósbleikur að innan.

Berið fram heitan með stórri skeið af salsa á toppnum.