Fara í efni

Ostakex með sesamfræjum

Dásamlegt ostakex með sesamfræjum.
Ostakex með sesamfræjum

Ég var sannarlega ekki að finna upp hjólið með þessu hrökkbrauði – því er nú ver og miður vegna þess að það er einstaklega gott.

Hafandi prófað um það bil 137 útgáfur af svona hrökkbrauði er þetta mín útgáfa og sú sem ég geri oftast. Einfalt og alveg sjúklega gott.

Það er valfrjálst að setja ost ofan á, ef þið eruð sælkerar skulið þið samt gera það. Ég geri það ekki alltaf, en ef ég á til góðan bragðmikinn ost eins og parmesan, grana padano, gruyére eða aðra snilld nota ég það óhikað. Þið getið svo bara notað þau fræ sem ykkur þykja góð eða þau sem þið eigið inni í skáp.

 

 

Ostakex með sesamfræjum:

  • 2 dl spelt (fínt eða gróft eða bæði)
  • 1 ½ dl sesamfræ
  • ½ dl sólblómafræ
  • ½ dl chiafræ
  • 1 tsk sjávarsalt
  • ½ dl ólífuolía
  • 1-1 ½ dl heitt vatn
  • 2 dl rifinn parmesan eða annar bragðmikill ostur

Aðferð: Hitið ofn í 200 gráður. Öllu nema ostinum blandað vel saman í skál, ég nota bara venjulega matskeið við blöndunina. Setjið vatnið smám saman út í blönduna, þið þurfið e.t.v. ekki að nota það allt. Deigið á að vera eins og frekar þykkt og blautt brauðdeig. Takið eina örk af bökunarpappír (á stærð við bökunarplötu) og leggið á borð, setjið deigið á pappírinn og leggið aðra bökunarpappírsörk ofan á. Fletjið út með kökukefli þangað til deigið fyllir næstum út í bökunarpappírsörkina. Fjarlægið efri bökunarpappírinn, stráið ostinum yfir og skerið för í deigið t.d. með pizzahníf í þá stærð sem þið vijið hafa kexið. Leggið á bökunarplötu og bakið í 15 mínútur eða þar til gullinbrúnt.

 

Uppskrift af vef eldhusperlur.com