Fara í efni

Lengra líf með (hóflegri) kaffidrykkju

Kaffi hefur um langt skeið verið vinsælasti örvandi drykkur jarðarbúa. Hann hefur ekki bara áhrif á þreytu, heldur gegnir þessi svarti beiski drykkur mikilvægu félagslegu hlutverki í mörgum og mismunandi menningarheimum.
Lengra líf með (hóflegri) kaffidrykkju

Kaffi hefur um langt skeið verið vinsælasti örvandi drykkur jarðarbúa. Hann hefur ekki bara áhrif á þreytu, heldur gegnir þessi svarti beiski drykkur mikilvægu félagslegu hlutverki í mörgum og mismunandi menningarheimum.

Að auki hefur drykkurinn og áhrif hans verið viðfangsefni fjölmargra rannsókna og virðast kostir sem og ókostir kaffisins vera nær óteljandi. Nýlega birtist rannsókn í vísindaritinu Circulation sem bendir á enn eina jákvæða hlið kaffineyslu.

Rannsóknin var unnin á yfir 200 þúsund manna þýði. Þátttakendur voru meðal annars beðnir um að svara ýtarlegum spurningalista um matarvenjur sínar og þar á meðal kaffidrykkju. Mikil kaffidrykkja virðist samkvæmt rannsókninni tengjast aukinni inntöku áfengis og tóbaksneyslu. Slíkar tengingar verða að teljast neikvæðar. Hins vegar ef reykingar voru teknar út, þ.e. einungis horft á einstaklinga sem drukku kaffi en reyktu ekki kom í ljós að sá hópur var mun ólíklegri til að þróa með sér hjarta- og æðasjúkdóma, sykursýki týpu tvö og taugahrörnunarsjúkdóma. Engu máli skipti hvort þátttakendur drukku kaffi með koffíni eða koffínlaust kaffi svo líklegt þykir að lífvirk efni í kaffinu hafi þessi áhrif á insúlín framleiðslu og bólgusvörun, svo dæmi séu tekin.

Þrátt fyrir þessa fylgni kaffidrykkjunnar og aukinnar lífslengdar er þó enn erfitt að segja til um hvað það er sem kaffið gæti verið að gera fyrir líkamann, til að svara þeirri spurningu þyrftu að gera ýtarlegri rannsókn þar sem til dæmis væri hægt að skoða áhrif kaffis á frumur í rækt. Þangað til er kannski enn rétt að stilla kaffidrykkju í hóf, en þessi rannsókn gefur þó að minnsta kosti ekki tilefni til að hætta neyslu, á þessum dýrmæta svarta vökva, að fullu.

Grein af vef hvatinn.is