Fara í efni

Mataræði þarf ekki að vera flókið

„Mataræði þarf ekki að vera flókið og þeir sem eru að flækja það eru þeir sem eru að selja ákveðnar vörur,“ segir Ingibjörg Gunnarsdóttir, prófessor í næringarfræði við Háskóla Íslands. Læknadagar 2014 hófust í gær og var fyrsti dagurinn tileinkaður umræðu um næringu. Ingibjörg hélt erindi undir yfirskriftinni: Næringarráðleggingar í dag: Staðreyndir eða skáldskapur?
glæsilegt og hollt salat
glæsilegt og hollt salat

„Mataræði þarf ekki að vera flókið og þeir sem eru að flækja það eru þeir sem eru að selja ákveðnar vörur,“ segir Ingibjörg Gunnarsdóttir, prófessor í næringarfræði við Háskóla Íslands. Læknadagar 2014 hófust í gær og var fyrsti dagurinn tileinkaður umræðu um næringu. Ingibjörg hélt erindi undir yfirskriftinni: Næringarráðleggingar í dag: Staðreyndir eða skáldskapur?

„Ég var að fjalla um hvernig við getum greint á milli opinberra ráðlegginga um fæðuval, sem við þekkjum t.d frá Embætti landslæknis, og sérúrræða fyrir sjúklingahópa. Það sem hefur gerst er að sérúrræði varðandi mataræði hafa smitast út í þjóðfélagið, samanber lágkolvetnafæði, ofurskammta af d-vítamíni og fleira sem fólk virðist taka upp. Þetta eru sérúrræði sem hafa verið sniðin að einstaklingum sem eiga við veikindi að stríða en heilbrigðir einstaklingar taka upp.“

Viðhöldum vitleysunni

Mataræði þarf ekki að vera flókið og þeir sem eru að flækja það eru þeir sem eru að selja ákveðnar vörur, segir Ingibjörg. „Við erum alltaf að reyna að viðhalda vitleysunni með því að reyna að gera hana aðeins skynsamlegri, t.d velta fyrir okkur hvort við eigum að nota agave-síróp eða hvítan sykur þótt einfaldast væri að drekka minna af gosi og borða minna af kexi og kökum. Bara minnka skammtinn og njóta. Það er alltaf verið að reyna að plokka næringarefnin úr matnum og selja í duft- og bætiefnaformi og koma því inn hjá fólki að það fái ekki næringarefnin úr matnum en það er svo auðvelt fyrir okkur á Íslandi að sækja þetta í venjulegum mat.“

Magnesíum í ýmsu formi

Nýjasta æðið í heilsuheiminum er magnesíum sem má nú fá t.d. í duftformi og sem úða. Ingibjörg segir að engar rannsóknir hafi verið gerðar á gagnsemi magnesíums í því formi. „Vitað er að fólk í góðum magnesíumbúskap fær síður sjúkdóma en það er samkvæmt faraldsfræðilegum rannsóknum sem þýðir að þetta fólk hefur fengið magnesíum úr fæðunni. Það er ekkert í dag sem bendir til þess að almenningur njóti góðs af því að taka magnesíum inn sem bætiefni. Hinsvegar ætla ég ekki að útiloka að það séu ákveðnir hópar út í samfélaginu sem þurfi á því að halda, t.d. fólk yfir fertugu sem hleypur 100 km á viku. En fyrir allan almenning er ekkert sem bendir til þess að þetta gagnist eins vel og menn láta af núna.“