Fara í efni

Hjálpa andoxunarefni krabbameinsvexti ?

Andoxunarefni eru efni sem koma í veg fyrir að öldrun og skemmdir í frumum. Andoxunarefni er að finna í hinum ýmsu matartegundum og má þar nefna bláber og vínber, sérstaklega eru dökk ber rík af andoxunarefnum.
Hjálpa andoxunarefni krabbameinsvexti ?

Andoxunarefni eru efni sem koma í veg fyrir að öldrun og skemmdir í frumum.

Andoxunarefni er að finna í hinum ýmsu matartegundum og má þar nefna bláber og vínber, sérstaklega eru dökk ber rík af andoxunarefnum.

Lengi vel hefur verið talið að mikið magn andoxunarefna í líkamanum geti unnið gegn myndun krabbameina. Það er raunar rétt vegna þess að andoxunarefnin koma í veg fyrir skemmdir. Hins vegar virðist ný rannsókn sýna að krabbameinsfrumur hafa einnig hag af andoxunarefnum, svo mögulega eru þau ekki sérlega holl, hafi krabbamein nú þegar myndast.

Í rannsókninni notaðist hópur, við UT Southwestern Medical center, við mýs til að rannsaka meinvörp sortuæxla. Krabbameinsfrumur úr sjúklingi var sprautað í mýsnar og fylgst með hegðun krabbameinsins þegar mýsnar annars vegar fengu andoxunarefni í fæðu og hins vegar fengu ekki andoxunarefni. Við meðhöndlun músanna með andoxunarefnum mynduðust marktækt hraðar meinvörp í samanburði við mýs sem ekki fengu andoxunarefni.

Þegar krabbamein fara að meinvarpast þá fer hluti frumnanna úr æxlinu á ferð um líkamann með blóðrásinni. Til að meinvarp myndist þurfa frumurnar að komast í líffæri sem þær hafa getuna til að vaxa í og sem betur fer er þetta ferli ekki sérlega skilvirkt. Það þýðir að miklu fleiri frumur fara af stað í meinvörp en nokkurn tíman ná að mynda æxli annars staðar í líkamanum. Við mikla oxun, þ.e. þegar oxandi efni myndast í umhverfi frumnanna, sem gerist við hefðbundna líkamsstarfsemi, þá verða skemmdir í sumum frumunum sem leiða til dauða þeirra. Þess vegna er oxun í líkamanum að einhverju leiti heftandi fyrir æxlið, því þá fara færri frumur af stað í meinvarpandi ferli. Um leið og andoxunarefni koma til sögunnar þá bindast þau oxandi efnum í líkamanum og koma þannig í veg fyrir oxun. Það má því segja að andoxunarefni, sem koma sér vel fyrir heilbrigðar frumur til að viðhalda heilbrigði sínu, komi sér einnig vel fyrir krabbamein, vegna þess að þau viðhalda líka heilsu krabbameinanna.

Rannsóknir sem gerðar hafa verið á andoxunarefnum hafa flestar verið þess eðlis að kostir þeirra koma skýrt fram, þ.e. við að viðhalda heilbrigði frumna. Hins vegar hefur klínískum prófunum á áhrifum andoxunarefna á krabbameinssjúklinga verið hætt þar sem sjúklingunum virtist hraka hraðar en von var á. Slíkar rannsóknir renna stoðum undir það sem hópurinn í UT Southwestern sá í sinni rannsókn.

Andoxunarefni virðast því hafa mjög sterka virkni til að vernda lifandi frumur, gallinn við þau er þó sá að verndaráhrifin eru ekki sértæk, því gætu niðurstöður sem þessar leitt til þess að krabbameinssjúklingum verði ráðlagt frá andoxunarefnum meðan á krabbameinsmeðferð stendur og jafnvel lendur.

Grein af vef hvatinn.is