Fara í efni

Einn mola fyrir hvert ár

Skilaboð tannlækna um að betra sé að hafa einn nammidag í viku frekar en að fá sér sælgætismola á hverjum degi voru skynsamleg og hefðin um laugardagsnammið hefur að einhverju leyti fest rætur hér á landi.
Sykurneysla barna er áhyggjuefni
Sykurneysla barna er áhyggjuefni

Skilaboð tannlækna um að betra sé að hafa einn nammidag í viku frekar en að fá sér sælgætismola á hverjum degi voru skynsamleg og hefðin um laugardagsnammið hefur að einhverju leyti fest rætur hér á landi.

En eftir að verslanir hófu að bjóða 50% afslátt af nammibörum á laugardögum hefur þróunin orðið sú að frekar en að spara 50% við sælgætiskaup hefur neyslan tvöfaldast. Þá borða mörg börn sætindi og gos mun oftar en einu sinni í viku.

Nú hefur Krónan, í samvinnu við Matís, brugðið á það ráð að birta upplýsingar um hóflegan sælgætisskammt með það að markmiði að minnka óhóflega neyslu sælgætis.


Á veggspjaldi sem Matís hefur hannað með Krónunni er reglan einföld; einn moli fyrir hvert aldursár barnsins. Magnið byggist á meðalgildum fyrir daglega orkuþörf nokkurra aldursskeiða þar sem miðað er við meðal líkamsþyngd og hreyfingu. Sjá töflu:
 

Hóflegt magn af laugardagsnammi 

Aldur

4-5

6-9

10-12

13-14

15-16

Fullorðnir

Grömm

35 g

45 g

50 g

62 g

65 g

62 g

Kaloríur

140

180

200

250

260

250

 

Neytendasamtökin fagna þessu framtaki enda ljóst að sykurneysla Íslendinga er alltof mikil og slæm tannheilsa barna er einnig áhyggjuefni.

Fréttir hafa borist að því að Víðir sé ekki með nammibari í sínum verslunum og að í Hagkaupum verði settar upp sambærilegar leiðbeiningar og í Krónunni.