Fara í efni

Umfang lífsins - Guðni með hugleiðingu dagsins

Umfang lífsins - Guðni með hugleiðingu dagsins

UM SÚREFNI

Umfang öndunar er umfang lífsins. Meðalmanneskja andar á milli 18–30.000 sinnum á hverjum degi. Meðaltalið er u.þ.b. 24.000 andardrættir á einum sólarhring. Hver einasti andardráttur er tækifæri til vera í vitund og blása upp allar frumur líkamans og fylla þær af orku. Hvernig andar þú? Hvernig nýtir þú þessi 24.000 tækifæri?

Súrefni er eitt vanmetnasta næringarefni sem líkaminn þarf á að halda. Við getum verið án matar svo vikum skiptir en við getum einungis verið án súrefnis í fjórar mínútur. Súrefni er forsenda brennslu þrúgusykurs í öllum frumunum okkar sem melta og miðla orkunni um allan líkamann. Andar þú í vitund? Það er lítið rætt um súrefni í næringarbókmenntum samtímans enda lítill hagnaður af þeirri umræðu fyrir markaðskerfin sem við höfum hannað í sameiningu. Engin breyting sem þú framkvæmir hefur jafn afgerandi áhrif á heilsu þína og velsæld eins og að hefja virka öndun í vitund. Andar þú djúpt og reglulega þegar þú nærist? Ef þú andar ekki djúpt á meðan þú nærist, þá skiptir litlu máli hversu næringarríkan mat þú innbyrðir. Takmörkuð öndun verður þess valdandi að súrefnisupptaka og framboð súrefnis til frumanna er skert. Umbreyting fæðunnar og upptaka og nýting mikilvægra næringarefna verður þannig í lágmarki.

Súrefni er litarlaust, lyktarlaust og bragðlaust efni. Það hefur þann eiginleika að geta sameinast flest öllum frumefnum og er forsenda brennslu líkamans. Súrefni er einnig nauðsynlegt þegar kemur að meltingu, sem er í raun önnur gerð líkamsbrennslu. Með öðrum orðum er hlutfall súrefnis og næringar í frumunum lykillinn að umbreytingu orkunnar.