Fara í efni

Þú ert listamaður eigin tilvistar - Guðni og hugleiðing dagsins

Þú ert listamaður eigin tilvistar - Guðni og hugleiðing dagsins

ÞÚ ERT SÝNINGARVÉL

Þú ert skapari. Þú ert listamaður eigin tilvistar. Áður en þú ferð að skilgreina lífssýn þína skaltu framkvæma eftirfarandi æfingu. Komdu þér fyrir á þægilegum stað þar sem þú hefur næði í 5–10 mínútur. Lokaðu augunum og byrjaðu að sjá fyrir þér eldhúsið heima hjá þér. Skoðaðu smáatriðin og staðsettu helstu hlutina í eldhúsinu. Er eldhúsið þér að skapi eða viltu breyta því? Hvernig myndirðu vilja sjá innréttinguna? Þarf fleiri skápa? Þarf að mála innréttinguna? Skipta henni alveg út? Sjáðu fyrir þér eldhúsið eftir að þú mótar innréttinguna eftir eigin höfði, í algeru frelsi. Viltu skipta um tegund af eldavél? Viltu stærra eldhúsborð? Viltu brjóta niður vegginn á milli eldhúss og stofu? Viltu geyma potta og pönnur á krókum á veggjunum?

Hvað eru margir stólar við eldhúsborðið? Sérðu fyrir þér breytingar á högum fjölskyldunnar? Er eldhúsborðið umgjörð fyrir velsæld og nána samveru? Horfðu á veggina og skiptu um lit á þeim. Finndu hvað það er einfalt að skipta um lit á veggjunum – finndu valdið sem þú hefur yfir eigin ákvörðunum og eigin sýn.

Skráðu niðurstöðurnar í grófum dráttum.