Fara í efni

Þú ert alltaf skapari - hugleiðing á föstudegi

Þú ert alltaf skapari - hugleiðing á föstudegi

Hver ákvað að gera þig svona og setja þig hér?

Einn tveir og nú og það varst þú! Þú ert alltaf skapari. Þú ert umbreytingareining sem dregur í sig orku alla daga, nýtir hana, meltir og sendir hana frá þér aftur – orka eyðist aldrei, henni er aðeins hægt að umbreyta og ráðstafa. Þú ert heilög orkuvera sem á í stöðugum og margþættum samskiptum við annað fólk, hluti, aðstæður og allan heiminn.

Við erum alltaf að ráðstafa orkunni og hagræða henni, okkur í vil. Stundum viljum við nota orkuna til að lítillækka okkur, stundum viljum við hefja okkur yfir aðrar manneskjur í því sem er kallað mikilmennskubrjálæði eða hroki. En blekkingin er sú að við tengjum aðeins hið síðarnefnda við sjálfhverfu eða egóisma. Sannleikurinn er auðvitað sá að það er jafn mikið egó í lítillækkun og upphafningu.

Við hlaupum frá lasti og reynum að fá lof. Skömmina forðumst við og eltumst við frægð, frama og viðurkenningu.

Vítahringur egósins og skortdýrsins hljómar svona:

Lof eða last, ágóði eða tap, ánægja eða sársauki, frægð eða skömm.

Ekkert af þessu veitir endanlega hamingju.

Spurningin er aðeins hvort þú ert tilviljun eða slys – skapandi slys eða skapandi í vitund; skapari með skýran tilgang sem viljar heiminn og lífið til sín. Þú sleppur aldrei undan orkunni sem í þér býr – þegar þú velur að velja ekki velurðu slysið sem kemur; þú dregur til þín fólk eða aðstæður eftir því hvernig þinn innri vindur blæs, eftir orkunni sem í þér býr og á hvaða tíðni hún er.

Ertu slys eða ertu í viljandi tilviljun?

Frelsið felst í að viðurkenna þá staðreynd að við erum sífellt að ráðstafa orkunni til að staðfesta eigin tilvist og viðhorf – frelsið felst í að viðurkenna þessa staðreynd og taka sig þar með úr stöðu fórnarlambsins.