Fara í efni

Sjálfstraust er áunnið - hugleiðing Guðna í dag

Sjálfstraust er áunnið - hugleiðing Guðna í dag

Maður með sjálfstraust treystir sjálfum sér

Sjálfstraust er áunnið. Að treysta þýðir að styrkja og efla. Með því að líta á orð okkar sem heilög og standa við gefin loforð og annan ásetning styrkjum við okkur sjálf og treystum. Þannig öðlumst við sjálfstraust og sjálfsmyndin skýrist og styrkist. Agi þýðir einungis að segja sannleikann og standa við gefin loforð, að standa með sér.

Hugsaðu um það hvenær þú stóðst með þér og hvaða merkingu það hafði. Það er ekkert grátt svæði þegar kemur að sannleikanum. Ef þú hefur daginn með því að ýta á letingjann á vekjaraklukkunni ertu, í vitund eða ekki, að fresta velsæld þinni og heimild til vaxtar. Allar frestanir eru lúmsk svik og lygar við okkur sjálf og tilveruna. Við prettum okkur og rýrum til vansældar. Nýttu þennan dag til að veita því athygli hvort þú hafnar þér eða elskar þig og æfðu þig í að elska þig samt, hvað sem á dynur. Sýnirðu þér heiðarleika og einlægni?