Fara í efni

Okkar sjálfsöguðu réttindi - Guðni með hugleiðingu á þriðjudegi

Okkar sjálfsöguðu réttindi - Guðni með hugleiðingu á þriðjudegi

Sjáum hvernig við förum að á öðrum sviðum lífs okkar. Við sláum upp mótatimbri til að styðja við steypuna þar til hún harðnar.

Við styðjum við börnin okkar og hvetjum þau þangað til þau ganga sjálf. Við notum hækjur á meðan við jöfnum okkur eftir fótbrot.

Og þegar við gróðursetjum ungar og viðkvæmar plöntur búum við til skjól því við vitum að annars fer plantan að vaxa en gefst svo upp þegar á móti blæs.

Þegar við förum úr hegðunarmynstri skortdýrsins yfir í ferli velsældar þurfum við næringu, umgjörð og skjól, því annars blása vindar fortíðar um þessa plöntu okkar, festan verður engin og hún lognast út af og deyr. Rétt eins og annað sem á að vaxa, styrkjast og stækka þarf plantan okkar athygli, næringu, ást og skjól.

Af hverju ættu önnur lögmál að gilda um gróðursetningu af þessu tagi?

Af hverju skiljum við þörfina á skjóli við ýmsar viðkvæmar aðstæður í náttúrunni og daglegu lífi en viljum neita okkur sjálfum um skjól þegar við stígum inn í ljósið og út úr skuggahegðuninni?

Erum við að neita okkur um sjálfsögð réttindi? Erum við að bregða fæti fyrir okkur sjálf?

Framgangan opinberar heimildina. Allt sem við gerum opinberar okkur. Þegar framgangan er hæg eða engin geturðu litið á hvaða heimild þú hefur skammtað þér. Birtan er takmörkuð. Þarna er beint orsakasamhengi á milli – um leið og þú gefur þér heimild til að láta af hegðun vansældar og skorts mun framgangan koma af sjálfu sér, án þvingunar.