Fara í efni

Okkar eigin viðbrögð - Guðni og hugleiðing á föstudegi

Okkar eigin viðbrögð - Guðni og hugleiðing á föstudegi

Pirringur er titrandi viðnám – sjálfsvorkunn í umbúðum

Í dag skoðum við eigin viðbrögð við heiminum. Erum við að velja viðbragð í vitund, eða erum við að bregðast við út frá forsendum atburða fortíðarinnar eins og hrætt dýr í dimmum skógi? Sannleikurinn er sá að hingað til hafa mörg viðbrögð okkar verið dýrsleg fremur en andleg. Það er auðvelt að réttlæta viðbrögð sín ef maður trúir því að aðrir beri ábyrgð á því hvernig maður bregst við („hann gerði mig svo reiðan“) en þegar við skiljum að við höfum alltaf frjálst val verður ábyrgðin algerlega okkar. Og þar liggur frelsið og gríðarlegt magn af orku.

Í dag fylgjumst við því með eigin viðbrögðum við áreiti. Hvað pirrar okkur? Hvað veldur okkur ótta og örvæntingu? Hvernig eru viðbrögð okkar? Erum við með sjálfum okkur, t.d. þegar við erum að „bíða“ eftir einhverju? Erum við með sjálfum okkur, eða er öll athyglin í höfðinu, í hugsunum um eitthvað annað en hér og nú?

Í lok dagsins förum við yfir hann í huganum. Hvað stendur upp úr? Getum við sagt að við höfum verið með sjálfum okkur í dag? Hvenær brugðumst við óheppilega við? Við hvaða aðstæður? Af hverju?