Fara í efni

Hverju veitir þú athygli - hugleiðing Guðna á laugardegi

Hverju veitir þú athygli - hugleiðing Guðna á laugardegi

Þú ræður alltaf hverju þú velur að veita athygli.

Allt sem þú veitir athygli vex og dafnar.

Og þannig kviknar ljósið og það logar allan tímann – ekki aðeins þegar markmiðinu er náð heldur alla leiðina, með hverju litlu skrefi, á hverju andartaki þegar vel gengur og líka þegar þér finnst þér ganga illa, því þegar við höfum tilgang til að standa á og skýr markmið sem byggjast á draumi þá getum við átt við flækjur og snúninga sem verða á vegi okkar.

Þá getum við svo sannarlega tekið alla snúninga sem ferðalagið býður upp á – notið lífsins. Og lífið er snúið, eins og núið sem er aldrei búið.

Því að manneskja með tilgang dæmir ekki það sem gengur á – hún bara er og hún hreyfir sig og nýtur lífsins.

Ferð með tilgangi er ferð án fyrirheits.

Ferð með tilgangi er ferð án fyrirheits, án væntinga, og skrefin í þeirri ferð eru stigin í trausti og nautn, upp fallega og aflíðandi brekku sem felur ekki í sér átök við hvassa tinda.

Ferð án fyrirheits getur því aldrei valdið vonbrigðum.

Við skiljum hugmyndina um skilyrðislausa ást, t.d. gagnvart börnunum okkar:

„Ég elska þig og mun alltaf gera, hvað sem á gengur.“

Þetta er ást án fyrirheits – án skilyrða. Aðeins ást.

Að líta á lífið sem ferð án fyrirheits.

„Ég elska að vera til og lifa – ég elska allt sem á gengur, því allt er eins og það á að vera, allt er eins og ég vil að það sé. Ég elska ferðina sem er lífið.“