Fara í efni

Heilsurækt og hugrækt - Guðni með hugleiðingu 2.janúar

Heilsurækt og hugrækt - Guðni með hugleiðingu 2.janúar

Lengi vel átti ég mér skuggahegðun og sjálfvirka grunnstillingu.

Hún virkaði þannig að þegar orkan mín fór niður fyrir æskileg mörk byrjaði að hljóma í kollinum á mér þrábæn vansældar:

„Ég er fátækur, latur, óheilbrigður, óhamingjusamur, hatursfullur, óþakklátur, nískur, feitur, valdlaus og ófullkominn.“

Þetta er krassandi áburður – söngur píslarvottsins:

„Ég er ómögulegur. Heimurinn er ósanngjarn. Lífið er táradalur. Engum er treystandi.“

Og svo framvegis.
Þarna mallaði þrábænin, óáreitt, í langan tíma og hafði vitanlega þau áhrif að líðanin varð enn verri – því hver getur hlaupið maraþon þegar hann telur sér trú um það allan tímann að hann geti það ekki? Enginn. Ekki nokkur einasti maður.

Með áralangri iðkun heilsuræktar og hugræktar hef ég breytt hugsanaferli mínu þannig að í dag fer önnur staðhæfing í gang þegar ég rýri mig með of litlum svefni eða ofbeldisfullri neyslu – þegar ég hef varið orkunni minni í vansæld, þegar ég hef þreytt mig, þegar ég er orðinn leiður, leiðinlegur; þreyttur, þreytandi. Staðhæfingin hljómar svona:

„Ég er auðugur, duglegur, heilbrigður, hamingjusamur, kærleiksríkur, þakklátur, örlátur, grannur, valdmikill og fullkominn – og ég elska mig.“

Til að losna út úr vananum þurfum við stuðning, ferli, skipulag, skjól – til að sigla framhjá áætlun skortdýrsins. Er það svo slæmt? Erum við svo föst í sjálfstæðisbaráttunni að við viljum ekki aðstoð og skjól?