Fara í efni

Fjarvera er eina fíknin - föstudagur og Guðni með hugleiðingu

Fjarvera er eina fíknin - föstudagur og Guðni með hugleiðingu

Fjarvera er eina fíknin – öllu er hægt að snúa upp í fjarveru og fíkn, að vilja sig ekki.

Ást sem fjarvera – ég verð uppljómaður þegar ég elska einhvern annan og einhver annar elskar mig.

Trúarbrögð sem fjarvera – ég leita út fyrir sjálfan mig að uppljómun og sáluhjálp.

Sjónvarp sem fjarvera – ég þigg örvun og hugmyndir í stað þess að skapa þær sjálfur og deyfi skynfæri mín í leiðinni.

Matur sem fjarvera – ég borða of mikið, of óhollt, of oft og hafna eðlilegu ástandi líkamans. Eða: Ég borða of sjaldan og of lítið og held líkamanum í spennitreyju vannæringar.

Áfengi og eiturlyf sem fjarvera – ég deyfi skynfæri mín og breyti skynjunni, auk þess sem ég skapa mér vanlíðan í 1–2 daga á eftir og hafna mér með eftirsjá og skömm.

Tóbak sem fjarvera – ég hafna líkama mínum með því að eitra fyrir honum, oft á dag, þvert gegn betri vitund.

Þreyta sem fjarvera – ég vel að vera þreyttur því það gefur í skyn að ég hafi verið duglegur og undir álagi, auk þess að vera góð leið til að fá athygli.

Streita sem fjarvera – ég tek að mér of mikið og fresta verkefnum til að upplifa tilfinningarússíbanann sem fylgir því að klára á síðustu stundu.