Fara í efni

Ég er mættur, ég er máttugur, hvað nú - Guðni og hugleiðing á sunnudegi

Ég er mættur, ég er máttugur, hvað nú - Guðni og hugleiðing á sunnudegi

AÐ LEGGJA GRUNNINN – TILGANGS OG SÝNAR

Ég er mættur. Ég er máttugur. Hvað nú?

Hvar er ég? Hver er ég? Hvert vil ég fara? Hvenær? Hvernig ætla ég að gera það? Og á hvaða forsendum? Við höfum allt sem við þurfum – núna – til að lifa í friði og fullkominni velsæld. Við getum allt – þegar við munum að það sem virðist ómögulegt tekur aðeins lengri tíma.

Það kemur ekki í veg fyrir að við viljum ýmislegt. Við elskum okkur af fullum krafti og skínandi ljósi, eins og við erum, líka þær hliðar okkar sem við höfum hingað til litið á sem galla. Með því að elska þær hliðar öðlumst við mátt til að breyta. Við öðlumst nýjar forsendur – núna þurfum við ekki að breyta neinu, núna viljum við breytingar og veljum þær, vegna þess að við elskum okkur eins og við erum.

Þannig látum við af fjarverunni, látum okkur vera og mætum inn í eigin tilvist, til félagsskapar við okkur sjálf. Við drögum máttinn úr skortdýrinu með því að mæta inn í tíðni hjartans.

Lífið er undur. Við getum á hvaða augnabliki sem er tekið ábyrgð, öðlast mátt og lifað viljandi. Viljað okkur.

Við getum hvenær sem er veitt okkur heimild til velsældar með því að opna hjarta okkar og elska okkur í stað þess að hafna; með því að elska okkur í krefjandi aðstæðum þar sem skortdýrið hefur oft fengið að leika lausum hala hingað til.

Að geta alltaf sagt við okkur sjálf: „Ég elska mig, ég vil mig eins og ég er, núna.“