Fara í efni

Blómkálssteik með kókosrjómasósu og granateplum

Ég á afmæli í dag! Í tilefni þess deili ég með þér uppáhaldi mínu þessa dagana og jafnframt því sem ég mun fá mér á jólunum, himnesk blómkálssteik með kókosrjómasósu og brakandi ferskum granateplum. Steikin er öðruvísi en þú sérð á mörgum heimilum og vá hvað hún er góð! Eftir ferðalög til Ísrael og Grikklands þarsíðasta sumar varð ég heltekin af kryddum Miðjarðarhafsins og matarhefðum Líbana. Jólin mín í ár verða því innblásin þaðan.
Blómkálssteik með kókosrjómasósu og granateplum

Ég á afmæli í dag! 

Í tilefni þess deili ég með þér uppáhaldi mínu þessa dagana og jafnframt því sem ég mun fá mér á jólunum, himnesk blómkálssteik með kókosrjómasósu og brakandi ferskum granateplum.

Steikin er öðruvísi en þú sérð á mörgum heimilum og vá hvað hún er góð!

Eftir ferðalög til Ísrael og Grikklands þarsíðasta sumar varð ég heltekin af kryddum Miðjarðarhafsins og matarhefðum Líbana. Jólin mín í ár verða því innblásin þaðan. 

Ég verð nú að segja að í ferðalaginu varð ég ekkert síður heltekin af indverskri matargerð og kom ég heim með tösku fulla af indverskum klæðnaði, kryddum og borðskálum sem má sjá hér á Instagram síðu minni, en indversk jól bíða víst betri tíma

DSCF6469 

Ég held þú verðir hrifin/nn af steikinni, enda er hún:

  • Stökk að utan
  • Silkimjúk að innan
  • Vegleg
  • Seðjandi
  • Ótrúlega holl
  • Frískandi þegar hún er borin fram með kókosrjómasósu og granateplum 

Fullkomnari hátíðarsteik gerist það ekki að mínu mati.

DSC_0859

Blómkálssteikin eldast eins og hefðbundar steikur, hún er krydduð og sett í eldfast mót í c.a. klst og borin fram með sósu. Afar einfalt og þægilegt.

Ef þú eldar hana í heilu lagi eins og ég geri mæli ég með að velja litla og krúttlega blómkálshausa eða skera blómkálið í tvennt eða þrennt og krydda. Þannig grípur blómkálið kryddin enn betur í sig.

Uppskriftin er innblásin af blómkáli sem má finna á einum uppáhalds veitingstað mínum hérlendis, Sumac.  Þar er blómkálið snilldarlega borið fram og mæli ég eindregið með veitingastaðnum fyrir þá sem hafa ekki prófað. 

Blómkálssteik

Blómkálssteik með kókosrjómasósu og granateplum

Bakað blómkál
1 blómkálshaus
1 msk ólífuolía eða 1 msk vegan smjör brætt
1 tsk sítrónusafi
1 tsk hlynsróp

Kryddblanda
1 tsk salt
½ tsk  malað kúmen
½ tsk kóríander
kardimommuduft á hnífsoddi
múskat á hnífsoddi

Sósa
3/4 bolli kókosmjólk úr dós (eða notið Nush möndluost eða Nush kasjúhnetujógúrt án bragða sem fæst t.d í Nettó fyrir örlítið þykkari sósu)
1 msk hvítt tahini
örlítið af sítrónubörk
örlítill sítrónusafi
salt og pipar eftir smekk

Til skreytingar: Granatepli, möndluflögur, sítrónubörkur, fersk steinselja.

1. Hitið ofninn við 190°C. 

2. Fjarlægið lauf blómkálsins og skerið stilkinn í burtu þannig að blómkálið geti staðið upprétt. Fyrir enn sterkara bragð má skera blómkálið í 2-4 hluta (fer eftir stærð blómkáls) og tvöfalda magn kryddblöndunar.

3. Setjið blómkálið í eldfast mót, hrærið kryddblönduna saman í skál og penslið yfir. Hyljið mótið með loki eða álpappír og eldið í 40-50 mín ef þið eldið heilt blómkál eða 20-30 mín ef þið skerið blómkálið. Eldið aðeins þar til miðja blómkálsins er orðin mjúk og hægt er að stinga hníf í gegn. Þá er álpappírinn tekinn af og blómkálið eldað í 5-10 mín til viðbótar eða þar til gyllt og örlítið stökkt að utan.

4. Útbúið á meðan sósuna með því að blanda öllu saman í skál eða blandara. Geymið í kæli.

5. Berið blómkálið fram með sósunni, granateplum, ristuðum möndluflögum, sítrónubörk og ferskri steinselju. Frábær jólasteik eða sem meðlæti.

Ég vona að þú prófir, láttu endilega vita hvernig smakkast og taggaðu mig á @julias.food á instagram, mér finnst mjög gaman að sjá ykkar myndir! Ekki gleyma að deila á Facebook!

Ég er afar þakklát fyrir að fá að skrifa til þín og þakka fyrir samfylgdina á liðnu ári. 

Óskum við þér gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári! 

Heilsa og hamingja

jmsignature