Fara í efni

Polefitness

Súlufimi er eitt af þeim líkamsræktarformum sem hefur náð auknum vinsældum á síðustu árum á Íslandi. Íþróttin hefur þó verið umdeild og viðhorf fólks oft litað af fordómum vegna þess að það tengir súlufimi við erótík og klám.
Glæsileg
Glæsileg

Súlufimi er eitt af þeim líkamsræktarformum sem hefur náð auknum vinsældum á síðustu árum á Íslandi. Íþróttin hefur þó verið umdeild og viðhorf fólks oft litað af fordómum vegna þess að það tengir súlufimi við erótík og klám. En hvaðan kemur þessi tenging? Er hún til staðar í öllum samfélögum eða bara sumum?

Hvaðan kemur súlufimi?

Saga íþróttarinnar er flóknari en margir myndu halda. Það fer eftir því hvaða hlið íþróttarinnar er skoðuð hvaða uppruni á við.

Súlufimleikar

Þegar rætt er um súlufimi sem íþrótt eða lóðrétta fimleika er vanalega talað um þrjár íþróttir frá mismunandi löndum sem súlufimi hefur þróast út frá.

  • Í fyrsta lagi er hún talin hafa þróast frá súluklifri sem einnig var stundað sem klifur á skipsmöstrum og var vinsælt um Evrópu.
  • Í öðru lagi hefur súlufimi þróast út frá Mallakhambh sem er indversk fimleikaíþrótt á súlu. Súlan er úr tré og er keppst er um að gera fimleikaæfingar og halda líkamlega krefjandi stellingum á súlunni. Mallakhambh hefur verið keppnisíþrótt frá því á 19.öld þó að talið sé að íþróttin sé mun eldri.
  • Í þriðja lagi er súlu fimi sögð hafa þróast frá kínverskri súlufimi. Í þeirri íþrótt eru súlurnar yfirleitt tvær og eru þær þaktar gúmmíi til að íþróttamaðurinn nái betra gripi. Kínverskir súlufimleikar ganga út á það að klifra upp súlurnar, renna sér niður þær og halda stellingum sem krefjast mikils styrks og liðleika.

Þessar þrjár íþróttir sem hafa verið nefndar voru og eru aðallega stundaðar af karlmönnum. Hin hliðin á súlufimi, sú sem er skyldari dansi, er frekar tengd við konur.

aa

Súludans

Súlufimi sem dans á rætur sínar að rekja í  mæðraveldi fortíðarinnar þar sem konur dönsuðu fyrir aðrar konur til að auka frjósemi landsins. Dansinn þjónaði ekki þeim tilgangi að vera erótískur, karlmönnum til skemmtunar.

Hin erótíska hlið bættist hinsvegar við á þriðja áratugi tuttugustu aldarinnar þegar ferðasirkusar fóru um Bandaríkin og hópur af dönsurum hrissti mjaðmirnar og dansaði ögrandi í kringum súluna sem hélt tjaldinu uppi. Þessir dansarar voru kallaðir „Hoochi Coochi“ dansarar.

Þessir ögrandi dansar færðust síðan úr sirkusnum og yfir á bari þar sem þeir sameinuðust burlesque dönsum. En það er ekki fyrr en á níunda áratug tuttugustu aldarinnar, fyrst í Kanada og síðan í Bandaríkjunum, sem súludans fór að tengjast erótískum dansi og fatafækkun.

Árið 1990 hóf Fawnia Mondey að kenna öllum þeim sem vildu súludans og lagði þar með grunninn að nútíma súlufimi. Súlufimi hefur síðan þróast og breyst mikið og er ekki lengur einungis erótískur dans, dansaður af konum fyrir karlmenn heldur blanda af dansi og fimleikum.

Menningarlegt samhengi

Á Íslandi hafa súludansstaðir verið starfræktir frá tíunda áratugi tuttugustu aldar. Það er því staðreynd að ákveðin hefð sé fyrir súludansi sem erótísku athæfi í íslensku samfélagi og því erfitt að losna við stimpil „súludansmeyjarinnar“ eða „stripparans“ fyrir Íslendinga sem stunda súlufimi. Hinsvegar er áhugavert að skoða hvernig litið er á súlufimi í samfélagi sem ekki hefur slíka hefð.

Súlufimi í Saudi Arabíu

Árið 2010 var súlufimiþjálfaranum Lucy Misch boðið að fara til Saudi Arabíu til að kenna konu súlufimi inni á heimili hennar. Lucy hafði ákveðnar hugmyndir um landið áður en hún kom þangað en þær hugmyndir voru fljótar að breytast. Enda þótt opinbera lífið þar sé mjög íhaldssamt og formfast hefur fólk frelsi til að lifa lífinu eins og því hentar innan veggja heimilisins.

Konan sem fékk Lucy til að koma og kenna sér hafði heyrt um súlufimi frá systur sinni sem var búsett í Evrópu. Þær höfðu rætt um það hversu góð líkamsrækt súlufimi væri og þau jákvæðu áhrif sem hún hefur á líkamann. Konan vildi því endilega fá kennara til sín þar sem súlufimi hefur enn ekki náð vinsældum eða útbreiðslu í landinu. Maðurinn hennar var einnig mjög jákvæður gagnart því að konan hans væri að æfa súlufimi sem er áhugavert miðað við hið íhaldssama umhverfi sem þau búa í. Lucy lýsir þessu jákvæða viðhorfi svona:

„Because there’s no history of strip clubs or pole dancing, most men would think women were just learning a new form of exercise – ironically in a place where religion and judgement plays such a large role, pole suffers from fewer preconceived connotations or moral judgements“.

Hægt er að lesa grein Lucy um upplifun hennar á Saudi Arabíu í heild sinni á bloggsíðu hennar.

Íþrótt eða ómenning?

Súlufimi er oft tengd við erótík svo framarlega sem hefð sé fyrir erótískum súludansi í því samfélagi. Þó er orðræðan um súlufimi á Íslandi að breytast. Íþróttin er betur kynnt en áður, fólk er upplýstara og fleira fólk þorir að prófa að æfa súlufimi.

En spurningin er, mun súlufimi einhvertíma losna algjörlega við „strippara“ stimpilinn? Það er erfitt að segja. Ef svo er gæti verið langt þangað til. Það gæti jafnvel tekið heila kynslóð. Þegar börn nútímans vaxa úr grasi og eru vön því að sjá mömmu eða pabba æfa súlufimi sem íþrótt og jafnvel fengið að æfa sjálf er möguleiki á að íþróttin verði samþykktari og ekki tengd við erótík.

Heimild: lifandivefrit.hi.is