Fara í efni

Gildi hreyfingar

Það er óumdeilanlegt að hreyfing er manninum nauðsynleg en hreyfingin getur verið af ýmsum toga, hún getur verið allt frá því að fara í göngutúr með hundinn, hjóla eða ganga í vinnuna, hlaupa upp tröppurnar fremur en taka lyftuna til þess að stunda skipulagðar íþróttir. Eitt er óumdeilanlegt: Hreyfing er okkur nauðsynleg til þess að lifa góðu lífi!
Gildi hreyfingar

Það er óumdeilanlegt að hreyfing er manninum nauðsynleg  en hreyfingin getur verið af ýmsum toga, hún getur verið allt frá því að fara í göngutúr með hundinn, hjóla eða ganga í vinnuna, hlaupa upp tröppurnar fremur en taka lyftuna til þess að stunda skipulagðar íþróttir.

 

 


Eitt er óumdeilanlegt: Hreyfing er okkur nauðsynleg til þess að lifa góðu lífi!

Til hvers þurfum við vöðva?

Við notum vöðva til þess að halda okkur uppréttum, til að hreyfa okkur og til að anda. Ekki má gleyma því að hjartað er líka vöðvi.

Langvarandi rúmlega veldur því að mikill vöðvamassi tapast. Raunar byrja vöðvarnir að rýrna strax á fyrstu sólarhringunum.

Hreyfingarleysi þýðir með öðrum orðum að vöðvastyrkur okkar minnkar, þolið minnkar, beinmassinn gisnar, liðbrjósk og liðbönd veikjast. Það eina sem ekki breytist verulega er matarlyst okkar og því er hætt við að fita safnist fyrir.

Á ég þá að fara að stunda maraþonhlaup eða þjálfa í líkamsræktarstöð?

Sumir ættu kannski að gera það. Öðrum nægir að fara í góða gönguferð daglega eða annan hvern dag.

Nokkur atriði hafa áhrif á það hvaða form þjálfunar verður fyrir valinu:

Hvert er markmið mitt með að hreyfa mig?

Hvernig er ég á mig komin/n líkamlega?

Hvað er ég gamall/gömul?

Hversu mikið þoli ég?

Síðan er hægt að byrja af skynsemi.

Það kann að vera markmiðið hjá sumum að geta hlaupið maraþonhlaup, en hjá öðrum ef til vill aðeins að komast út í búð fótgangandi án þess að verða kúguppgefin/n á eftir.

Hvers vegna á ég að hreyfa mig?

Hreyfing getur komið í veg fyrir ýmiss konar kvilla  og það er aldrei of seint að byrja. Í raun setur aldurinn okkur engin mörk hvað varðar árangur af líkamsrækt. Hreyfing í litlum mæli hefur fyrirbyggjandi áhrif á hjartasjúkdóma, hættu á blóðtappa og hækkaðan blóðþrýsting og eykur liðleika í vöðvum og liðamótum. Takmörkuð hreyfing bætir einnig ónæmiskerfið, en líkamsrækt í óhófi virðist hins vegar veikja ónæmiskerfið.

Þessu til viðbótar bætir regluleg hreyfing skapið og þeir sem stunda líkamsræktina ásamt öðrum geta hugsanlega bætt félagslega stöðu sína.

Mér finnst leiðinlegt að hreyfa mig og ég hef ekki tíma til þess. Hvað á ég að gera?

Allir verða þreyttir á líkamsræktinni stöku sinnum.

Sérstaklega þegar maður er þreyttur eða illa upplagður, en þá er ráðið að tæla sjálfan sig samt af stað vegna þess að  líðanin verður svo milku betri á eftir.  Þeir sem stunda reglulega hreyfingu ættu líka að gæta þess að æfa ekki of mikið og hlusta vel á líkamann. Þeir sem stunda líkamsrækt af nokkru kappi verða nefnilega að slaka á öðru hverju til þess að líkaminn geti jafnað sig og byggt upp nýja orku.

Ef einhverjum þykir alltaf erfitt að fara í ræktina getur hugsast að hann hafi ekki valið réttu tegundina af líkamsrækt eða leggi jafnvel of hart að sér. Einnig er hugsanlegt að viðkomandi liði betur ef hann hefði félagsskap.

Þeir tímar koma í lífi margra að þurfa að forgangsraða barnauppeldi og vinnu fram yfir líkamsrækt og hreyfingu.  Þá  er mikilvægt  að foreldrar skiptist á um að gefa hvort öðru frí einu sinni til tvisvar í viku til þess að fara út að hlaupa eða hjóla í hálftíma, þótt ekki sé annað eða taka börnin með, annaðhvort í barnastólum aftan á hjólunum eða sitjandi í kerru, og fara í langa síðdegisferð.

Notaðu líkamann daglega

Þú gætir ef til vill hjólað í vinnuna

Hlauptu upp stiga í stað þess að taka lyftuna

Notaðu gamaldags sláttuvél í stað vélknúinnar

Gerðu leikfimiæfingar á stofugólfinu meðan þú horfir á fréttirnar í sjónvarpinu

Þér eru engin takmörk sett – nema þá að þig skorti ímyndunarafl!

Best er  að stunda líkamsrækt að lágmarki í 30 mínútur í hvert skipti, fimm sinnum í viku en þó er betra að taka þjálfunina með mörgum „smápásum“ en að sleppa henni alveg. Sú hreyfing á að duga til þess að halda hjartavöðvanum í formi.

Er nóg að hreyfa sig til þess að ná að létta sig?

Orkubrennslan eykst, bæði meðan á þjálfun stendur og á eftir. En þú léttist takmarkað af hreyfingunni einni saman. Það er nauðsynlegt að breyta mataræðinu til þess að léttast að ráði. Ef maður hreyfir sig jafnframt er hægt að auka þyngdartapið enn meir án þess að vöðvamassinn rýrni.

Hversu mikið á ég að hreyfa mig?

Mörg rök hníga að því að hreyfing sé nauðsynleg. Sumir kjósa að leggja stund á keppnisíþróttir, þar sem sífellt er reynt að bæta árangurinn. Fyrir þá skiptir ef til vill mestu máli að líkaminn fái hvíld nógu oft.

En fyrir okkur hin snýst þetta um að draga sem mest úr hættu á sjúkdómum í bráð og lengd, auk þess að njóta þeirrar líkamlegu og andlegu vellíðunar sem hreyfingin veitir okkur.

Hversu mikið við hreyfum okkur og hvernig, er undir hverjum og einum komið.

25 ára manneskja á kannski erfitt með að skilja að daglegar athafnir, eins og að klæða sig og taka til, geti reynt svo mikið á krafta þess sem er sjötugur að hann hafi ekki orku til neins annars.

Það er með öðrum orðum ekki hægt að ætla þessum tveim manneskjum sams konar þjálfun.

Við getum líka snúið þessu við og sagt að vel þjálfuð sjötug manneskja getur verið sterkari en sú 25 ára sem stundar enga hreyfingu, þó að fólk á áttræðisaldri geti aldrei náð upp jafnmiklu þoli (mælikvarði: súrefnisupptaka miðað við líkamsþyngd) og þeir sem eru 25 ára.

Þess vegna er mælt með að sá 25 ára stundi hæfilega erfiða þjálfun þrisvar í viku en sá sjötugi byrji á stuttum gönguferðum og léttum leikfimiæfingum. Sjá einnig líkamsrækt aldraðra.

Í báðum tilvikum ætti þjálfunin að skila merkjanlegum árangri og vera til gagns og gleði.

Hreyfingin má aldrei verða að leiðinlegri kvöð!Ef mann langar ekki til annars, má alltaf fara í langa gönguferð, a.m.k. hálftíma nokkrum sinnum í viku til þess að njóta umhverfisins og fjölbreytileika árstíðanna.

Hreyfing og áreynsla upp að vissu marki er okkur nauðsyn til þess að við virkum í önn og amstri dagsins.

Heimild: doktor.is