Fara í efni

Fyrirlestur um gildi hlaupa og hreyfingar fyrir andlega heilsu

Framfarir, Hollvinafélag millivegalengda og langhlaupara, stendur fyrir fyrirlestri þann 4. apríl nk. þar sem Högni Óskarsson geðlæknir og sérfræðingur í stjórnendaþjálfun fjallar um gildi hlaupa og hreyfingar fyrir almenna heilsu og vellíðan.
Fyrirlestur um gildi hlaupa og hreyfingar fyrir andlega heilsu

Framfarir, Hollvinafélag millivegalengda og langhlaupara, stendur fyrir fyrirlestri þann 4. apríl nk. þar sem Högni Óskarsson geðlæknir og sérfræðingur í stjórnendaþjálfun fjallar um gildi hlaupa og hreyfingar fyrir almenna heilsu og vellíðan.

Högni er sjálfur vel þekktur fyrir sína ástundun og árangur í hlaupum í gegnum tíðina, en þrátt fyrir að vera kominn yfir sjötugt syndir hann, hjólar eða hleypur flesta daga. Hann hleypur helst styttri vegalengdir í dag en hljóp þó Laugaveginn fyrir fjórum árum, og kláraði Landvætti fyrir þremur árum. Hann hljóp sitt fyrsta maraþonhlaup árið 1975 í Bandaríkjunum og tók þátt í keppnum þar fram til 1980. Hann átti besta íslenska tímann í nokkur ár í heilu maraþoni og þess má geta, að konan hans Ingunn Benediktsdóttir, var fyrsta íslenska konan til að hlaupa heilt maraþon en það var árið 1979.

Í sínum daglegu störfum vinnur Högni mikið með streitu og álagsstjórnun og hefur skipulagt og tekið þátt í fjölda málþinga um geðheilsu, hreyfingu, streitustjórnun og áföll fyrir utan rannsóknir, skrif og erindi um geðraskanir.

Fyrirlesturinn verður í D-sal í húsakynnum ÍSÍ við Engjaveg á 3. hæð og hefst kl. 19:30. Aðgangseyrir er 1.500 kr og rennur til Framfara sem hefur að markmiði að styðja við framfarir í millivegalengdum og langhlaupum á Íslandi.

Allir velkomnir,

Stjórn Framfara.