Fara í efni

Að hlaupa saman er hvers manns gaman

Víkingar hafa hlaupið saman frá árinu 2002 en Almenningsíþrótta-deild Víkings tók formlega til starfa árið 2010. Markmið deildarinnar er að bjóða upp á fjölbreytta þjálfun fyrir alla 18 ára og eldri.
Það er gaman að hlaupa saman
Það er gaman að hlaupa saman

Víkingar hafa hlaupið saman frá árinu 2002 en Almenningsíþrótta-deild Víkings tók formlega til starfa árið 2010. Markmið deildarinnar er að bjóða upp á fjölbreytta þjálfun fyrir alla 18 ára og eldri. Starfsemin miðar að því að efla hreyfingu og heilbrigðan lífstíl meðal fólks.

Almenningsíþróttadeild Víkings, starfrækir gönguhóp, skokkhóp og hjólreiðahóp. Flestir sem áhuga hafa á útiveru og hreyfingu ættu því að geta fundið sér þjálfun við hæfi hjá okkur.

Þátttaka í hlaupum hefur aukist mikið hér á landi undanfarið. Við förum ekki út fyrir hússins dyr öðruvísi en að sjá eða rekast á skokkara. Þeir eru allsstaðar, hvar ert þú? Flest okkar stunda nefnilega störf sem krefjast ekki líkamlegrar áreynslu en líkami okkar þarfnast hreyfingar. Við verðum því að taka tíma frá daglegu amstri með einhvers konar heilsurækt. Því þegar öllu er á botninn hvolft er tíma vel varið sem nýttur er í heilsurækt.

Það er mikil gróandi í skokkhópum og eru einstaklingar duglegir að taka sig saman og mynda hópa sem hittast reglulega og hlaupa saman með eða án þjálfara. Þá hafa íþróttafélög mörg hver einnig myndað hópa sem starfandi eru undir leiðsögn þjálfara. Starfsemi skokkhópa er mikilvæg því þar er bæði hægt að finna góðan félagsskap, þjálfa sig undir leiðsögn þjálfara og fá ýmsa fræðslu sem tengist hlaupum. Stór kostur við skokkhópa er að hér er á ferð tiltölulega ódýr heilsurækt.
 

Birna Baldursdóttir - 50 ára

HVENÆR GEKKSTU Í SKOKKHÓPINN, VARSTU BÚIN AÐ HLAUPA LENGI ÁÐUR?

Ég var ein af stofnendum Almenningsíþróttadeildar Víkings en hafði áður skokkað af og til með "gamla" skokkhópnum í Víkinni og þar áður með ÍR í tvö ár. Skokkið hefur fylgt mér lengi, ég var 18 ára þegar ég byrjaði að skokka reglulega þannig að þetta eru orðin rúm 30 ár. Í gegnum tíðina hef ég þó mest skokkað ein eða með manninum mínum. En nú er ég búin að finna réttu samsetninguna, við hjónin skokkum saman í frábærum skokkhópi Víkings.

2. HVAÐ HEFUR ÞAÐ GEFIÐ ÞÉR AÐ HLAUPA Í SKOKKHÓPI?

Mér finnst mjög gaman að hlaupa með öðrum og því er félagslega hliðin það sem ég sækist helst eftir í skokkhópi. Svo er líka gott aðhald að hafa alveg fasta tímapunkta fyrir æfingar, þá frestar maður miklu síður æfingum. Einnig skipta þjálfarar mjög miklu máli, skemmtilegur þjálfari sem setur upp fjölbreyttar æfingar sem höfða til fólks á mismunandi stigum í skokkinu er gulls ígildi.

3. HVER ER MUNURINN Á ÞVÍ AÐ HLAUPA EIN EÐA Í SKOKKHÓPI?

Munurinn liggur aðallega í félagslegu hliðinni, þjálfurunum og aðhaldinu.

4. HVERNIG HLAUPARI ERTU, HVAÐ HLEYPUR ÞÚ OFT OG LENGI Í EINU?

Ég skilgreini mig sem tímalausan skokkara. Mér finnst svolítill blæbrigða munur á að tala um hlaup eða skokk. Fyrir mér eru hlaup heldur meira keppnisdæmi en skokkið sem er meira svona að njóta þess að hreyfa sig úti á góðum hraða. Og þegar ég segi "góðum hraða" þá meina ég bara þeim hraða sem mig langar að vera á hverju sinni. Mér finnst ég t.d. alltaf hafa verið á góðum tíma í öllum almenningshlaupum sem ég hef tekið þátt í. Fyrir mér þýðir það að ég hef haft gaman af og notið hlaupsins.

Oftast skokka ég svona 3-4 sinnum í viku, allt frá 4 upp í 12 km, en lengra og mjög rólega einu sinni í viku og fer þá stundum lengra en 15km.

5. HVAÐ GERA HLAUP FYRIR ÞIG PERSÓNULEGA?

Að geta hreyft sig eru forréttindi, það eru ekki allir sem geta það. Ég sæki bæði líkamlegan og andlegan styrk í skokkið og mér finnst einfaldlega bara svo gaman og afslappandi að fara út og skokka.
 

1. NAFN OG ALDUR:

Kristján Matthíasson 52 ára.

2. HVENÆR GEKKSTU Í SKOKKHÓPINN, VARSTU BÚINN AÐ HLAUPA LENGI ÁÐUR?

Ég byrjaði í skokkhópi Víkings fyrir rúmum tveim árum. Þar á undan hafði ég skokkað töluvert, yfirleitt einn en stundum með vinnufélögum, sennilega í ein 10 ár.

3. HVAÐ HEFUR ÞAÐ GEFIÐ ÞÉR AÐ HLAUPA Í SKOKKHÓPI?

Það hefur gefið mér tvímælalaust mikið, bæði félagslega og hlaupalega. Það er jú skemmtilegra að tilheyra skokkhópi, maður kynnist nýju fólki og hlaupin verða skemmtilegri. Skokkhópur Víkings er frábær félagsskapur!

4. HVER ER MUNURINN Á ÞVÍ AÐ HLAUPA EINN EÐA Í SKOKKHÓPI?

Í skokkhópi blandar þú geði, miðlar reynslu, það er ákveðið aðhald að mæta þegar þú getur. Mér finnst nú samt líka gott að vera með sjálfum mér og hlaupa einn.

5. HVERNIG HLAUPARI ERTU, HVAÐ HLEYPUR ÞÚ OFT OG LENGI Í EINU?

Lífstíllinn eða hlauparútínan er oft háð markmiðum sem maður setur hverju sinni. Það hefur reynst mér mikilvægt að æfa líka styrk til að bæta mig. Mér finnst mjög gaman að taka þátt í keppnishlaupum, þá skiptir ekki öllu vegalengdin 5 km eða 10 km hlaup, 1/2 maraþon eða heilt maraþon.

6. HVAÐ GERA HLAUP FYRIR ÞIG PERSÓNULEGA?

Hlaupin skipta mig miklu máli, þau eru streitulosandi og gefa mikinn kraft í starfi og leik :) 
 

1. NAFN OG ALDUR:

Halla Gunnarsdóttir 44 ára

2. HVENÆR GEKKSTU Í SKOKKHÓPINN, VARSTU BÚIN AÐ HLAUPA LENGI ÁÐUR?

Ég gekk í skokkhópinn haustið 2010. Ég byrjaði að vísu að hlaupa sumarið 2007 þar sem ég var dregin út í þetta leiðinlega sport (að mér fannst þá) af einni öflugri úr skokkhópnum henni Ólöfu Rós Káradóttur.  Hún ber fulla ábyrgð á spriklinu.

3. HVAÐ HEFUR ÞAÐ GEFIÐ ÞÉR AÐ HLAUPA Í SKOKKHÓPI?

Það er mikilvægt fyrir mig að hafa utanumhaldið.  Það að þurfa að mæta á ákveðnum tíma og hlýða fyrirmælum þjálfara er gott fyrir mig. Ég er annars allt of ,,góð“ við sjálfa mig.

4. HVER ER MUNURINN Á ÞVÍ AÐ HLAUPA EIN EÐA Í SKOKKHÓPI?

Mér finnst gaman að hlaupa í samfloti og það er líka hvetjandi þar sem ég þarf þá a.m.k. að reyna að halda í við þann sem ég spjalla við hverju sinni. Þar sem ég er mjög spjallglöð þá er það einmitt hluti af þessu að fá tækifæri til þess að ræða hin ýmsu og mis mikilvægu mál líðandi stundar.

5. HVERNIG HLAUPARI ERTU, HVAÐ HLEYPUR ÞÚ OFT OG LENGI Í EINU?

Ég er RK skokkari (RK = RassKinnar). Það þýðir að ég tek lífinu með ró. Er ekki með neinn æðibunugang en kemst allt sem ég vil án þess að eyðileggja hné og kálfa og eitthvað enn meira. Það getur verið afar mismunandi hversu langt og hversu oft í viku ég hleyp en það getur verið frá 5 km upp í 12 km tvisvar til fjórum sinnum í viku. Ef ég undirbý mig fyrir t.d. hálft maraþon þá lengist í kílómetrunum eftir þörfum.

6. HVAÐ GERA HLAUP FYRIR ÞIG PERSÓNULEGA?

Hlaupin eru að mínu mati besta líkamsræktin. Það besta er að fara út í hvaða veðri sem er og endurhlaða rafhlöðurnar. Útiveran er æði og samhlauparar mínir í skokkhóp Víkings eru líka svo ótrúlega skemmtilegir.

1. NAFN OG ALDUR:

Vilhjálmur Jónsson 50 ára.

2. HVENÆR GEKKSTU Í SKOKKHÓPINN, VARSTU BÚINN AÐ HLAUPA LENGI ÁÐUR?

Í janúar 2013, hafði aldrei æft hlaup áður.

3. HVAÐ HEFUR ÞAÐ GEFIÐ ÞÉR AÐ HLAUPA Í SKOKKHÓPI?

Aðhald að mæta á æfingu hvernig sem viðrar, hitta skemmtilegu hlaupafélagana og takast á við þau skemmtilegu verkefni sem þjálfararnir leggja fyrir okkur.

4. HVER ER MUNURINN Á ÞVÍ AÐ HLAUPA EINN EÐA Í SKOKKHÓPI?

Hlaupin og  æfingarnar verða markvissari,hvatning frá hlaupafélögum og þjálfara verður til að maður leggur mun meira á sig. Framfarir verða mun hraðari í skokkhópi en að hlaupa einn, svo ekki sé talað um löngu hlaupin, þá er mun skemmtilegra að hafa einhvern með sér .

5. HVERNIG HLAUPARI ERTU, HVAÐ HLEYPUR ÞÚ OFT OG LENGI Í EINU?

Ég er áhugasamur hlaupari og er í þessu af ástríðu, hleyp þrisvar í viku um 25-40 km samanlagt.

6. HVAÐ GERA HLAUP FYRIR ÞIG PERSÓNULEGA?

Koma mér í gott form bæði á sál og líkama. Fæ aukna starfsorku allt verður svo miklu léttara. Hlaupin hafa leitt mig inn á gjörbreyttan lífsstíl, hollt mataræði og heilbrigt líferni.

Sendu okkur mynd á Instagram #heilsutorg