Fara í efni

Kjósið langhlaupara ársins 2015 - næstu tvö í röð þeirra tilnefndu

Kjósið langhlaupara ársins 2015.
Kjósið langhlaupara ársins 2015 - næstu tvö í röð þeirra tilnefndu

Í sjöunda skiptið stendur hlaup.is fyrir vali á langhlaupara ársins, bæði í karla- og kvennaflokki.

Þá er einkum verið að horfa til afreka í götu- og utanvegahlaupum eða annarri keppni í langhlaupum.

Afrek er afstætt, getur verið góður tími miðað við aldur, óvenjulegt verkefni, þrautseigja og kjarkur eða hvaðeina sem hægt er að meta til viðurkenningar.

Samtals voru 30 hlauparar tilnefndir í karla- og kvennaflokki til langhlaupara ársins 2015. Að þessu sinni eru það 6 konur og 6 karlar sem mynda endanlegan lista hlaupara sem kjósa á um. Það val var ekki auðvelt frekar en áður, því margir af þeim hlaupurum sem tilnefndir voru, hafa hver á sinn hátt unnið góð afrek og/eða sýnt mikla þrautseigju á síðasta ári.

Valnefnd til að velja úr tilnefningum þeim sem bárust, skipa Torfi Helgi Leifsson umsjónarmaður hlaup.is, Sigurður P. Sigmundsson langhlaupari og þjálfari, Gunnar Páll Jóakimsson þjálfari og fyrrum þjálfari Skokkhóps ÍR, Erla Gunnarsdóttir fyrrum þjálfari Skokkhóps Fjölnis í Grafarvogi og Margrét Elíasdóttir þjálfari KR-skokk.

Hægt verður að kjósa til kl. 24 mánudaginn 1. febrúar 2016. Verðlaunaafhending verður fyrstu helgina í febrúar (nánari tímasetning síðar) og tilkynnt verður um niðurstöðu kosningar í kjölfarið á því hér á hlaup.is.

Allir sem kjósa fara í pott og geta unnið hlaupaskó.

Form til að kjósa langhlaupara ársins (athugið að gefa besta hlaupara 6 stig og svo koll af kolli)

Ívar Trausti Jósafatsson (54 ára)  var sem áður drjúgur í götuhlaupunum á árinu og var ósigrandi í sínum aldursflokki. Hljóp maraþon á 2:58:46 klst. og hálfmaraþon á 1:20:49 klst. Þá hljóp hann 5 km á 17:07 mín sem er Íslandmet í flokki 50-54 ára. Í 10 km náði Ívar best 35:51 mín á árinu.

Birna Varðardóttir (21 árs) setti Íslandsmet í flokki 20-22 ára kvenna í maraþonhlaupi er hún hljóp á 3:15:27 klst í Kaupmannahöfn í maí sem var hennar fyrsta maraþon. Það var jafnframt annar besti árangur íslenskra kvenna í maraþonhlaupi á árinu. Þá hljóp Birna hálfmaraþon á 1:27:15 klst í RM.

Af vef hlaup.is