Fara í efni

Í tilefni af sigri Arnars Péturssonar ÍR í heilu maraþoni í Reykjavíkurmaraþoni tók Heilsutorg viðtal við hann

Ljósmynd:Eva Björk Ægisdóttir
Ljósmynd:Eva Björk Ægisdóttir

Skemmtilegt viðtal við sigurvegara Reykjavíkurmaraþons 2017.

 

Fullt nafn: 

Arnar Pétursson

Segðu okkur aðeins frá sjálfum þér og hvaðan ertu?

Ég er 26 ára og er fæddur og uppalinn í Kópavogi. Annars á ég ættir að rekja í Skagafjörðinn og á Borgarfjörð Eystri.

Menntun og við hvað starfar þú í dag?

Ég er með BA í Hagfræði og Master í endurskoðun og reikningsskilum (M.Acc.). Á næsta ári stefni ég svo að klára aðra mastersgráðu í fjármálum fyrirtækja og á sama tíma að klára kennsluréttindi.

Hver eru þín helstu áhugamál fyrir utan hlaupin ?

Ég hef mjög mikinn áhuga á íþróttum yfir höfuð en ég æfði fimleika sem barn og fór þaðan í fótbolta og körfubolta áður en ég endaði loksins í hlaupunum. Ég fylgist grannt með körfuboltanum og þá sérstaklega NBA deildinni og því sem gerist á Íslandi.

Hver var kveikjan að því að þú færir að æfa hlaup?

Þegar ég var 18 ára ákvað ég að hlaupa heilt maraþon í Reykjavíkurmaraþoninu því ég hafði náð lágmarksaldri til að taka þátt. Þetta gerði ég í rauninni bara til þess að geta tékkað af listanum að hafa hlaupið maraþon og æfði ekkert fyrir hlaupið heldur var bara á körfuboltaæfingum. Maraþonið gekk síðan bara virkilega vel og endaði ég á 2:55 og í öðru sæti af Íslendingum, í framhaldinu fór fólk að benda mér á að ég ætti kannski að einbeita mér að þessu en ég hafði lítinn áhuga á því. Ég ákvað að æfa almennilega fyrir maraþonið sumarið 2011 þegar ég var valinn sem 13 maður í U-20 landsliðið í körfubolta og var að keppast um að komast í 12 manna lokahópinn sem myndi keppa á Evrópumótinu þannig að það var ljóst að ég færi ekki út með liðinu. Æfingar gengu vel og ég endaði sumarið á því að vinna Reykjavíkurmaraþonið í fyrsta skipti. Eftir þetta ákvað ég að gera þetta af alvöru og ári seinna var ég hættur í körfubolta og hef núna í 5 ár verið eingöngu í hlaupum.

Hvað er erfiðasta hlaupið sem þú hefur tekið þátt í og af hverju?

Það er án efa Reykjavíkurmaraþonið 2012 þegar ég fékk krampa í magann eftir 50 mínútur en hélt áfram þrátt fyrir vítiskvalir sem endaði með því að ég náði að sigra með eins sekúndna mun á miklum endaspretti.

Ef við snúum okkur að nýjasta afrekinu, Reykjavíkur maraþoninu þar sem þú sigraðir, hvað hefur þú hlaupið það oft og hvernig var tilfinningin að hlaupa þetta hlaup á svo frábærum tíma.

Þetta var í sjötta skiptið sem ég klára maraþon og í þriðja skipti sem ég kem fyrstur í mark. Þetta var mitt langbesta hlaup frá upphafi til enda. Í rauninni gekk allt upp og mér leið virkilega vel allan tímann með hátt orkustig og enga verki. Að hlaupa maraþon er alltaf mjög sérstakt og að koma niður Lækjargötuna með fulla brekku af fólki að hvetja þig áfram er ólýsanleg tilfinning.

Hvað hleypur þú marga km að jafnaði á uppbyggingartímabili, á keppnistímabili og síðan síðustu 2 vikurnar fyrir hlaupið?

Ég flakka á milli 110km og upp í 170km á uppbyggingartímabilinu auk þess sem ég geri lyftingaæfingar fyrir fætur og styrktaræfingar. Yfir keppnistímabilið er meðalvika oft í kringum 130-140km en það fer eftir því í hvaða vegalengd ég ætla að keppa. Tveimur vikum fyrir hlaup minnka ég magnið töluvert og er þá að hlaupa meira eftir tilfinningu heldur en einhverju sérstöku magni, ef ég fíla mig þreyttan þá hleyp ég minna og svo framvegis. Magnið fer þó ekki mikið yfir 100km síðustu tvær vikurnar.

Hvað borðar þú og drekkur þegar þú keppir í maraþoni eða álíka vegalengdum?

Ég hef notast við orkugel og powerade í Reykjavíkurmaraþoninu auk þess sem ég fæ mér nóg af vatni.

Hvað þakkar þú helst árangrinum það sem af er þessu ári?

Ég er búinn að vera svakalega heppinn með stuðning þetta árið en einnig hef ég náð að stjórna álaginu vel og verið duglegur að hlusta á líkamann. Ég á mikið að þakka mínum styrktaraðilum auk þess sem ÍR hefur verið duglegt að standa við bakið á mér.

Nefndu þrennt sem þú átt alltaf til í ísskápnum ?

Ég er svo heppinn að fá stuðning frá Powerade og Hleðslu og þess vegna á ég alltaf til Bláan Powerade og Súkkulaði Hleðslu einnig finnst mér gott að eiga einn Víking gylltan ef maður ætlar að slaka á í pottinum eftir erfiða æfingu.

Hver er þinn uppáhalds matur & matsölustaður ?

Ég er mjög mikið fyrir kjúklingarétti auk þess sem ég er alltaf að reyna að borða meira og meira af grænmeti, þess vegna eru skálarnar á Gló í miklu uppáhaldi þessa dagana.

Hvað segir þú við sjálfa þig þegar þú þarft að takast á við stórt/erfitt verkefni?

Ef þú ætlar að ná árangri þá þarftu að vera svakalega harður við sjálfan þig en að sama skapi þarftu að hafa hausinn á réttum stað. Þannig að þegar ég er ekki að nenna út að hlaupa þá lít ég stundum í spegilinn og spyr mig „ertu aumingi?“ það endar síðan oftast með því að ég reima á mig skóna og skottast af stað. Þegar það kemur svo að stóru verkefni eins og að hlaupa maraþon þá reyni ég að vera ekki að mikla þetta of mikið fyrir mér og reyni þá að fara í ákveðna rútínu sem ég geri reglulega fyrir stórar og erfiðar æfingar, þannig að hlaupið verður þá í rauninni bara góð og erfið æfing.

Átt þú einhver góð ráð fyrir lesendur Heilsutorgs þegar kemur að hlaupum og árangri?

  1. Það er maraþon að ná árangri í maraþoni.
  2. Stöðugleiki í æfingum skiptir meira máli en hversu góðar æfingar þú tekur.
  3. Hlauptu rólega í rólegu hlaupunum. Ef þú ferð of hratt í rólegu hlaupunum verða gæðaæfingarnar ekki nógu góðar og þá er erfiðara í næsta rólega túr og svo framvegis.
  4. Fjárfestu í góðu hlaupaúri, það mun hjálpa þér meira en þig grunar.
  5. Reyndu að fjölga skrefunum sem þú tekur. Allt of margir taka of stór skref og gera hlaupin óþarflega erfið. Að taka 175-185 skref á mínútu er góð viðmiðunartala.