Fara í efni

18. Stórmót ÍR 2014

ÍR-ingar halda Stórmót ÍR í frjálsíþróttum í 18. sinn um komandi helgi.
18. Stórmóti ÍR 2014
18. Stórmóti ÍR 2014

18. Stórmót ÍR 2014

Yfir 500 keppendur þar af yfir 40 frá Færeyjum

ÍR-ingar halda Stórmót ÍR í frjálsíþróttum í 18. sinn  um komandi helgi.  Mótið fer í Laugardalshöllinni og hefur unnið sér sess sem langstærsta opna innanhússmótið frjálsíþróttum sem haldið er hár á landi á ári hverju.  Keppt er í aldursflokkum frá 8 ára og yngri upp í kvenna- og karlaflokk.  Þátttakendur  eru nú þegar yfir 540 frá 25 félögum víðs vegar að af  landinu auk Færeyja og Svíþjóðar.   Fjölmennastir eru ÍR-ingar með 130 keppendur, en Ármenningar og Aftureldingarmenn mæta með hátt í 50 keppendur. Yfir 40  Færeyingar keppa á mótinu, að þessu sinni frá þremur félögum. Koma Færeyingana er orðinn árviss  viðburður en þetta er fimmta árið í röð sem þeir taka þátt í Stórmóti ÍR. Einnig verða sænskir íþróttamenn meðal keppenda og verða erlendir keppendur því um 50 talsins.

Flestir þeir bestu með

Flest besta frjálsíþróttafólk landsins keppir á mótinu sem er síðasta mótið sem haldið er áður en valið verður í landslið Íslands fyrir fyrsta Norðurlandamótið í frjálsíþróttum innanhúss.  Frábær tónn var settur í keppnistímabil frjálsíþróttafólks með stórgóðum árangri á RIG um sl. Helgi og veit það á gott fyrir árið 2014.

Búast má við mjög spennandi keppni í 60m, 200m og 400m bæði karla og kvenna. Einnig er mikil uppsveifla í kúluvarpi karla þar sem ungir og efnilegir kúluvarparar eru að koma upp í karlaflokk og munu þeir berjast um verðlaunin. Langstökk bæði karla og kvenna gæti einnig orðið spennandi og bætinga er að vænta í stangarstökki kvenna og karla.


Yngstu þátttakendurnir keppa í fjölþraut samkvæmt alþjóðlegu keppnisfyrirkomulagi

Á laugardagsmorgun hefst keppni kl. 9:00 með keppni í fjölþraut barna 10 ára og yngri samkvæmt  keppniskerfi Alþjóða frjálsíþróttasambandsins IAAF sem nefnist á ensku „Kids Athletics“.  Á sama tíma hefst hefðbundi keppni í flokkum 11-14 ára. Eftir því sem líður á laugardaginn hefjast keppnisgreinar í eldri aldursflokkum.  Á sunnudag er svo keppt í flokkum 13 ára og eldri .

Allir velkomnir & kostar ekkert inn

Foreldrar keppenda eru hvattir til að mæta og jafnvel að draga ömmur og afa með til að fylgjast með börnunum uppskera árangur ástundunar og æfinga en ekki síður til að njóta góðrar samveru. Frítt er inn alla helgina.

Nánari upplýsingar gefa:

Margrét Héðinsdóttir formaður Frjálsíþróttadeildar ÍR í síma: 821-2172 margret1303@gmail.com
Þráinn Hafsteinsson yfirþjálfari Frjálsíþróttadeildar ÍR í síma: 863-1700 thrainnh@ru.is

Einnig má finna ítarlegar upplýsingar á:  http://ir.is/Deildir/Frjalsar