Fara í efni

Um skakka ábyrgðarkennd

Við erum öll fædd með ábyrgðarkennd. Í uppvextinum lærum við að þroska og þróa ábyrgð okkar.
Ábyrgðarkennd gagnvart fjölskyldunni skiptir máli
Ábyrgðarkennd gagnvart fjölskyldunni skiptir máli

Við erum öll fædd með ábyrgðarkennd. Í uppvextinum lærum við að þroska og þróa ábyrgð okkar. 

Lítið barn lærir smám saman að takast á við ábyrgð í smáum skömmtum.  Það er hlutverk uppalenda að gæta þess að ábyrgðarkennd barna nái að þroskast eðlilega.   En við sem erum fullorðin erum sumhver sjálf með skakka ábyrgðarkennd.

Skakkri ábyrgð er hægt að skipta í tvennt. Ýkt ábyrgð og lítil eða skert ábyrgð.

Ýkt ábyrgðarkennd lýsir sér til dæmis þannig að við upplifum að við berum ábyrgð á einstaklingum, atburðum eða aðstæðum sem við nánari skoðun stenst ekki. Við sem höfum upplifað ýkta ábyrgðarkennd eigum ekki auðvelt með að koma auga á hana en í sumum tilfellum afneitum við því. Auk þess viljum við réttlæta slíkar aðstæður.

Dæmi: Það er eðlilegt að við gætum þess að vekja barnið okkar til að það mæti á réttum tíma í skólann. Við gætum þess að barnið hafi með sér hollt nesti og að það klæðist í samræmi við veður. Þetta er allt saman eðlilegt, ef barnið er til dæmis 8 ára. En ef barnið okkar er orðið 27 ára þá er þetta orðið frekar einkennilegt. En mörgum okkar gengur illa að gangast við því . Við upplifum að viðkomandi fari sér að voða ef við hættum þessu! Í þessu dæmi er ábyrgðarkenndin orðin að stjórnsemi og afskiptasemi. Við berum ábyrgð á einstaklingi sem ætti að öllu jöfnu að vera búinn að læra að bera ábyrgð á sjálfum sér fyrir löngu.

Skert ábyrgðarkennd lýsir sér hinsvegar þannig að við teljum og réttlætum að einhver annar beri ábyrgð á okkur þrátt fyrir að vera fullorðnir einstaklingar. Við getum upplifað þetta á ýmsa vegu.

Dæmi: Við upplifum að einstaklingur tali ógætilega til okkar. Hér erum við ekki að tala um andlegt ofbeldi heldur hitt að við túlkum skilaboð eða samskipti sem niðurlægjandi. Við notum þennan atburð til að réttlæta vanlíðan okkar í (mis)langan tíma á eftir. Einhver særði okkur og okkur sárnar og gremst það. Þannig erum við búin að ákveða að viðkomandi beri ábyrgð á líðan okkar, hann særði okkur og við höfum því lögmæta ástæðu til að líða illa. Auðvitað getur framkoma annarra stundum verið meiðandi en það er okkar að bera ábyrgð á eigin líðan.

Heilbrigð ábyrgðarkennd miðast við að rækta hana þannig að við berum ábyrgð á sjálfum okkur. Ef við eigum börn undir 18 ára aldri þá berum við vissulega ábyrgð á þeim, en gætum þess að þau axli eigin ábyrgð eftir því sem þau vaxa og dafna. Ef við eigum í ástarsambandi, berum við sameiginlega ábyrgð með hinum aðilanum. Við öxlum ábyrgð á vinnu okkar en gætum þess að taka ekki á okkur ábyrgð sem telst utan starfsrammans og svo hæfileg að við ráðum við hana á hverjum tíma.

Með því að vinna í ábyrgðarkennd og rækta hana, fáum við aukið sjálfstraust og sjálfsvirðingu og samskipti okkar við annað fólk verða mun auðveldari.

Páll Þór Jónsson gg