Fara í efni

Sektarkenndin

Sektarkennd er innbyggð í okkur. Hún er nátengd siðferðiskenndinni okkar og þar með réttlætisskenndinni.
Sektarkennd
Sektarkennd

Sektarkennd er innbyggð í okkur. Hún er nátengd siðferðiskenndinni okkar og þar með réttlætisskenndinni.  

Sektarkennd hjálpar okkur að leiðrétta gjörðir okkar. Hún minnir okkur á ef við höfum gert á hlut annarra.  Hún hvetur okkur til að leiðrétta misgjörðir okkar. Sektarkenndin er því nauðsynleg öllum þeim sem vilja lifa heilbrigðu lífi og í góðum tengslum við vini og ættingja.

En sektarkenndin getur verið löskuð. Þeir sem eru til dæmis siðblindir upplifa síður eða alls ekki sektarkennd.  Þeir geta ekki sett sig í spor annars fólks og sjá þvi ekki hvað eða hvort þeir hafi gert eitthvað rangt. Blessunarlega eru fæst okkar siðblind en slæm siðferðisvitund getur þó orðið vandamál hjá þeim sem ánetjast vímuefnum.

Þegar sektarkennd laskast, til dæmis í æsku, getur hún stundum orðið sjálfvirk. Þannig getur ákveðið viðmót eða áherslur eða til dæmis tónn í tali fólks framkallað sjálfvirka sektarkennd. Þá upplifum við að við höfum gert eitthvað rangt án þess að nokkur ástæða sé til þess.

Margir rugla saman sektarkennd og skömm. Yfirleitt er sektarkennd tengd atburðum eins og ákvörðunum, samtölum, frestun eða misminni. Með öðrum orðum þá höfum við brugðist einhverjum þannig að við upplifum sektarkennd. En sektarkenndin getur umbreyst í skömm á þann veg að við viljum ekki segja nokkrum manni frá sök okkar.  Við skömmumst okkar fyrir gerðir okkar. Það er mjög meiðandi að lifa lífi þar sem sektarkennd er ráðandi. Það er ekki aðeins meiðandi fyrir þann sem upplifir hana því slæm líðan okkar hefur áhrif á umhverfið.

Ef við upplifum sektarkennd er það versta sem við gerum, að rífa okkur niður fyrir gerðir okkar. Þá er hætt við að við búum okkur til slæma og oft varanlega vanlíðan.  Við erum mannleg og þess vegna gerum við stundum mistök. Miklu betra er að gangast við þeim og leiðrétta þau, biðjast afsökunar eða bæta fyrir brot okkar.

Eðlileg sektarkennd er hinsvegar gott tæki sem við getum nýtt okkur. Best er að vinna með þá hegðun okkar sem kallar fram sektarkennd. Við skoðum hvernig hægt er að laga viðbrögð okkar og skoðum hvort sektarkenndin sé byggð á raunveruleikanum. Við leitumst við að skilja á milli sektarkenndar og skammar því það hjálpar okkur að þroskast tilfinningalega.

Það er skemmtilegt að vinna tilfinningavinnu því árangurinn skapar vellíðan og sjálfsvirðingu.

Páll Þór Jónsson   hhh