Fara í efni

Það sem húðflúr gera fyrir líkamann

Það hefur nú sjaldnast talist hollt að fá sér húðflúr enda felur athöfnin í sér að sprauta bleki í ýmsum litum langt undir húðina svo myndin tolli þar um ókomin ár.
Það sem húðflúr gera fyrir líkamann

Það hefur nú sjaldnast talist hollt að fá sér húðflúr enda felur athöfnin í sér að sprauta bleki í ýmsum litum langt undir húðina svo myndin tolli þar um ókomin ár. Þegar þetta er gert þá fer líkaminn af augljósum ástæðum á yfirsnúning við að reyna að losa sig við óþverran sem er kominn óboðinn inn.

En gætu verið einhverjar jákvæðar hliðar á húðflúrum? Samkvæmt rannsóknarhópi við University of Alabama geta húðflúr styrkt ónæmiskerfið.

Rannsóknin, þar sem þetta er prófað, var birt nýlega í American Journal of Human Biology en í henni er rætt við um 30 viðskiptavini húðflúrara. Um leið og viðtölin voru tekin fékkst einnig leyfi til að taka munnvatnssýni úr viðkomandi og í því var svo leitað að Immunoglobúín A (IgA) sem er eitt af fyrstu varnarviðbrögðum ónæmiskerfisins og kortisól, sem er stresshormón en það er einmitt þekkt fyrir að bæla viðbrögð ónæmiskerfisins.

Í ljós kom að við fyrsta húðflúr rýkur IgA í líkamanum uppúr öllu valdi. Þegar sama prótín var skoðað í fólki sem var að fá sér þriðja eða fjórða húðflúrið kom í ljós að IgA tók ekki nærri jafn stóran kipp og á sama tíma virtist kortisól magnið vera að hækka.

Þetta gefur vísbendingar um að líkaminn venst húðflúringunum og að viðbrögð hans við hinu óþekkta og óholla efni sem verið er að nota í húðflúrin verði mildari með hverju skiptinu.

Rétt er þó að taka fram að rannsóknin tók einungis til örfárra aðila og frekari rannsókna er þörf til að staðfesta niðurstöðurnar.

Að auki er ekki endilega víst að hægt sé að tala um húðflúr sem þátt sem er styrkjandi fyrir ónæmiskerfið þar sem ótal margir aðrir þættir spila þar stóra rullu og húðflúr er sennilega örlítið of mikið inngrip í líkamann til að rétt sé að mæla með því til að bæta ónæmiskerfið.

Niðurstöðurnar eru engu að síður mjög áhugaverðar.

Grein af vef hvatinn.is