Fara í efni

Réttar upplýsingar fást hjá réttum aðilum

Í tilefni umræðu í fjölmiðlum undanfarna daga um menntunarmál áfengis- og vímuefnaráðgjafa og hlutverk þeirra í meðferð þá langar mig að leggja orð í belg.
Kristjbjög Halla Magnúsdóttir
Kristjbjög Halla Magnúsdóttir

Í tilefni umræðu í fjölmiðlum undanfarna daga um menntunarmál áfengis- og vímuefnaráðgjafa og hlutverk þeirra í meðferð þá langar mig að leggja orð í belg.

Umræðan hefur verið einhliða frá félagi sem berst fyrir málefnum kvenna með áfengis- og fíknvanda, málefni sem mér finnst þarft og alltaf pláss að ræða hvernig hægt er að bæta hag alkóhólista og hvað má gera betur. Það sem mér þykir undarlegt er að þær sem harðast gagnrýna og hafa skoðanir á þessum málum virðast ekki hafa kynnt sér málin nægilega vel og geta sér til um og álykta og hafa ekki haft samband til að fá að vita hvernig málum er háttað. Ég gleðst yfir áhuga á málaflokknum, harma aðferðirnar.

Áfengis- og vímuefnaráðgjafar eru ný fagstétt í raun og veru, fengu löggildingu, viðurkenningu og skilgreiningu á starfinu og hvað þyrfti til að geta kallað sig þessum starfstitli árið 2006. Þó árum saman hafi áfengisráðgjafar verið til og starfað í þverfaglegu teymi. Við höfum barist fyrir því að fá nám okkar metið og fögnum áhuganum á því að standa vörð um að fagfólk sinni áfengissjúkum.

Víðtæk og markviss fræðsla
Það að segja að nám okkar sé í skötulíki og að ekkert sé að gerast finnst mér best lýsa þörfinni á að kynna þetta betur fyrir fólki, hvað það er sem áfengis- og vímuefnaráðgjafar gera í sínu starfi og hvað þarf til að geta kallað sig áfengis- og vímuefnaráðgjafa. Til er námsskrá sem samþykkt var árið 2006 á sama tíma og reglugerð um starf og starfsheiti og hefur verið kennt samkvæmt henni síðan. Að sjálfsögðu má ræða það hvort hún sé nægilega góð eða þurfi að enduskoða hlutina.

Mjög víðtæk og markviss fræðsla í margskonar málefnum tengdum alkóhólistum, mannlegu eðli, lyfjafræði, viðtalstækni, siðfræði, kenningum í sálarfræði, áhugahvetjandi samtalstækni, hópvinnu og svona væri lengi hægt að telja. Okkar þekking er í stöðugu mati og endurmati og þrátt fyrir að hafa unnið í þessum geira í rúm 9 ár, tekið formleg próf fengið löggildingu frá landlækni og löngu orðin „útskrifuð“ þá vitum við að þegar unnið er með fólki þá er maður líklega seint fullnuma. Þess vegna er horft á okkur vinna reglulega, við gagnrýnd studd og hjálpað til að geta verið sem færust í okkar starfi. Við sækjum okkur endurmenntun allt árið um kring innanlands og utan. Í okkar hópi er margra áratuga reynsla af þessari vinnu, þekking sem er uppfærð reglulega og viljum við svo sannarlega vanda til verka og höfum mikinn metnað í okkar starfi. Við erum ekki sálfræðingar, geðlæknar eða félagsráðgjafar og gefum okkur ekki út sem slíkir og vinnum ekki þeirra störf.

Röng staðhæfing
Að halda því fram að meðferðin okkar sé byggð á 12.spora vinnu og áfengis- og vímuefnaráðgjafar séu fólk sem styðst eingöngu við persónulega reynslu er röng staðhæfing og umræða á villigötum. Rétt er það að mörg okkar höfum reynslu af þessum málefnum, enda er það mjög oft það sem kveikir áhuga margra á starfinu þó það sé ekki algilt. Því hryggir það mig að sjá umræðu sem gæti fælt fólk frá því að leita sér aðstoðar.

Og að tjá sig um þesskonar mál sem eiga heima hjá landlækni í fjölmiðlum og mála upp svarta mynd af starfseminni og sjúklingunum sem hingað leita í einhliða alhæfingum og á ómálefnalegann hátt er í besta falli óheppilegt fyrir þá aðila sem hafa komið eða þurfa að koma og leita sér aðstoðar. Án þess að vilja gera lítið úr þeim málum sem upp geta komið.

Öll mál sem koma upp á heilbrigðisstofnunum fara í ákveðna verkferla, hægt er að tilkynna, láta rannsaka og fá upplýsingar um hvernig best er að snúa sér í þeim málum og hvet ég þá sem telja sig eiga erindi í slíka vinnu að gera það. Gagnrýni er af hinu góða, ef fólk þekkir efnistökin vel og er að rýna til gagns. Ágiskanir, ályktanir og umræða byggð á vanþekkingu á málefninu er ekki neinum til góðs.

Kristjbjög Halla Magnúsdóttir, áfengis- og vímuefnaráðgjafi, CAC

-----------------------------------------------------------------------------------------
Nú stendur yfir landssöfnun SÁÁ, Áfram Vogur, til styrktar Sjúkrahúsinu Vogi.
Leggðu söfnuninni lið með því að hringja í símanúmerið

903-1001 fyrir 1000 króna styrk
903-1003 fyrir 3000 króna styrk
903-1005 fyrir 5000 króna styrk