Fara í efni

Dagur án tóbaks er haldinn árlega þann 31.maí

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) heldur Dag án tóbaks 31. Maí árlega. Þema dagsins er beint að mikilvægi verðstýringar á tóbaki til þess að draga úr tóbaksneyslu og heilsufarstjóni sem af henni hlýst.
Það vita allir að það er óhollt að reykja
Það vita allir að það er óhollt að reykja

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) heldur Dag án tóbaks 31. Maí árlega. Þema dagsins er beint að mikilvægi verðstýringar á tóbaki til þess að draga úr tóbaksneyslu og heilsufarstjóni sem af henni hlýst.

Í tilefni dagsins er Talnabrunnur – fréttabréf landlæknis um heilbrigðisupplýsingar að þessu sinni helgaður greiningu á tóbaksneyslu á Íslandi, mismunandi formum hennar og ólíkri dreifingu neyslu eftir þjóðfélagshópum og búsetu.

Árangur tóbaksvarna á Íslandi hefur verið góður og stefna stjórnvalda birtist meðal annars í aðild Íslands að Rammasamningi WHO um tóbaksvarnir og nýlegri samþykkt Norðurlandaráðs um tóbakslaus Norðurlönd árið 2040.

Ísland er í 3. sæti meðal Evrópuþjóða í mælingum árið 2013 á framkvæmd sex lykilþátta til að ná niður neyslu tóbaks.

Samkvæmt greiningum á vægi einstakra þátta tóbaksvarna eru stjórnvaldsaðgerðir eins og verðstýring taldar vega þyngst. Árlega leiða tóbaksreykingar um það bil sex milljón einstaklinga í heiminum til dauða, þar af 650.000 í Evrópu. Hér á landi er áætlað að um 200 manns látist árlega vegna tóbaksreykinga. Á heimsvísu er tóbaksnotkun helsta orsök dauðsfalla sem hægt er að fyrirbyggja.

Reykingar eru enn stór sjúkdómsvaldur hér á landi og svo verður enn um sinn hjá þjóðfélagshópum þar sem reykingar eru enn tíðar. Á grundvelli rannsóknarinnar Heilsa og líðan Íslendinga 2012, sem Embætti landlæknis ber ábyrgð á, er hægt að greina tíðni daglegra reykinga eftir menntun og búsetu.Þar kemur fram að munur er milli heilbrigðisumdæma á tíðni daglegra reykinga en þó lækkar hann alls staðar milli áranna 2007 og 2012.

Þar sem tíðnin er hæst er hún jafnhá landsmeðaltali daglegra reykinga árið 2000. Tíðni daglegra reykinga hjá þeim sem hafa grunnskólapróf er 24,3%, sem er nálægt landsmeðaltali daglegra reykinga árið 1998. Þessar niðurstöður eru í samræmi við reynslu nágrannalanda sem hafa svipaða tíðni reykinga og Ísland.

Slíkar greiningar eru nauðsynlegar til að greina hvort að þörf sé fyrir fyrir sértækar aðgerðir. Þannig skapast einnig tækifæri fyrir fjölþætta nálgun lykilaðila í nærsamfélaginu.

Góður árangur hjá unglingum

Árangur tóbaksvarna blasir þó við, sérstaklega hjá unglingum. Brýnt er að bæta árangur hjá ungu fólki enda sýna rannsóknir að sjaldgæft er að fólk byrji að reykja eftir 25 ára aldur. Mikil aukning er á notkun tóbaks í vör og er það viðbótarneysla hjá yngri karlmönnum, en heildartóbaksneysla þeirra hafði áður farið ört lækkandi. Sú neysla virðist fylgja fæðingarárgöngum nú upp eftir aldri.

Af rúmlega 100.000 manns, sem eru á aldrinum 18 til 39 ára, reykja um 8.500 konur og 8.900 karlar. Þar af hafa um 1.700 konur og 1.300 karlar tekið ákvörðun um að hætta á næstu 30 dögum og um 3.000 konur og 3.000 karlar eru að íhuga að hætta innan 6 mánaða.

Hins vegar hafa um 3.800 kvennanna og um 4.600 karlanna ekki hugsað sér að hætta að reykja, a.m.k. ekki í nánustu framtíð (Heilsa og líðan Íslendinga 2012). Þessi greining á afstöðu fólks til að hætta reykingum gefur til kynna að þó nokkur fjöldi þeirra sem reykja vanmeti ávinning sinn af því að hætta.

Hér á landi hefur lengi verið samfélagssátt um að vinna að öflugum tóbaksvörnum og forða börnum frá að ánetjast tóbaki og hlífa þeim við tóbaksreyk. Nú er unnið að stefnumótun um tóbaksvarnir og er þessi greining mikilvægt innlegg í þá vinnu. Eitt af meginmarkmiðum stjórnvalda er að vinna gegn ójöfnuði í heilsu og leggja öflugar tóbaksvarnir sem ná til allra þjóðfélagshópa þeirri stefnu lið.

Lesa nánar: Talnabrunnur. 8. árg. 5. tölublað. Maí 2014.

Viðar Jensson

verkefnisstjóri tóbaksvarna

heimildir: landlaeknir.is