Fara í efni

Viðtal við Önnu Eiríks

Viðtal við Önnu Eiríks

Hvaða mottó hefur þú þegar kemur að því að lifa heilbrigðum lífsstíl?

Hreyfing og hollt mataræði er og hefur alltaf verið hluti af mínum lífsstíl. Ég hreyfi mig að staðaldri flesta daga vikunnar, bara mismikið eftir því hvort ég er í vinnunni eða í fríi en hreyfing er klárlega stór hluti af mínu lífi og eitt af mínum áhugamálum. Þegar kemur að mataræði þá myndi ég segja að ég borða 80% hollt á móti 20% óhollara. Mér finnst lífið allt of stutt og skemmtilegt fyrir boð og bönn og hefur það aldrei hentað mér vel að mega ekki borða eitthvað ákveðið og reyni ég því almennt að velja hollt, passa upp á skammtastærðirnar og nýt ég þess því í botn þegar ég leyfi mér eitthvað gott. Hinn gullni meðalvegur er málið!

Nú ertu alltaf að tileinka þér eitthvað nýtt hvað varðar hreyfingu, hvað finnst þér vera það heitasta í dag?

Við í Hreyfingu fylgjumst vel með því hvað er í gangi í líkamsræktarbransanum hverju sinni og alltaf eitthvað nýtt í gangi. Lyftingar eru mjög heitar núna þar sem fólk finnur fljótt og vel fyrir árangri en sumir lyfta þungu meðan aðrir kunna betur við að lyfta léttari lóðum. Hjólreiðar eru mjög heitar núna og sumarið er klárlega tíminn til að stunda þær en hjólatímar eins og hjá okkur í Hreyfingu eru mjög vinsælir og hafa verið í töluverðan tíma. Barre tímar eru mjög heitir í Bandaríkjunum og eru að breiðast út og búnir að vera mjög vinsælir hjá okkur undanfarið en þetta eru tímar þar sem unnið er mikið við balletstöng og með létt lóð, teygjur o.fl á gólfi og mótast líkaminn sem aldrei fyrr með þessum æfingum og konurnar finna það svo greinilega og þess vegna eru þessir tímar svona vinsælir. HIIT tímar eru líka klárlega mjög heitir núna en þá æfirðu í nokkuð stuttan tíma á mjög hárri ákefð og það góða við þá er einmitt það að þú þarft ekki að æfa í langan tíma til að æfingin skili frábærum árangri. Ég verð svo líka að segja að heitir tímar eru alveg svakalega vinsælir núna og ekki bara Hot Yoga heldur allskonar tímar þar sem unnið er í upphituðum sal, 30-34° en ég persónulega elska þessa tíma, maður kemur svo endurnærður út úr þannig tímum en samt búinn að taka svo vel á.

Hvernig er best að halda sér í formi í sumarfríinu?

Besta leiðin til að halda sér í formi í fríinu er að vera með æfingaplan til að fylgja eftir sem tekur ekki langan tíma að gera og halda hreyfingunni þannig inni í sinni dagskrá. Ég myndi mæla með þessu æfingaplani HÉR sem heitir FIT Í SUMAR og er að finna inn á heimasíðunni minni www.annaeiriks.is en þar er að finna fullt af frábærum æfingaplönum sem hægt er að gera hvar sem er. Það hjálpar mínum konum gríðarlega mikið að æfa eftir plani yfir sumarið og bæta svo við allskonar hreyfingu úti eins og hjólreiðum, fjallgöngum, hlaupum o.fl. Það er algjör óþarfi að missa allt niður yfir sumartímann og því mikilvægt að halda sér við efnið án þess að það fari út í einhverjar öfgar samt. Mikilvægt er líka að missa mataræðið ekki alveg úr böndunum og reyna að lifa t.d. eftir 80/20 reglunni en þá nýtur maður þess í botn að vera í fríi en samt að huga vel að heilsunni um leið.
 

Anna Eiríks

Hversu lengi og oft þurfum við raunverulega að æfa?

Það er talað um að þú þurfir að æfa 2-3 sinnum í viku til þess að viðhalda árangri en ef þú ætlar að ná árangri þá þarftu að æfa 4 sinnum eða oftar, það er svona viðmiðið. Æfingarnar þurfa alls ekki að taka langan tíma, ég myndi segja að góð 20-30 mínútna æfing er oft alveg nóg en æfingalengdin fer töluvert eftir ákefðinni. Þegar þú æfir af mikilli ákefð þá þarftu ekki að æfa eins lengi til að æfingin skili árangri en ef þú ert að æfa af minni ákefð þá er gott að auka æfingalengdina aðeins.

Hvernig lítur týpískur dagur út hjá þér í mataræðinu?

Hafgragrautur í morgunmat eða grísk jógúrt með granóla og berjum. Hafrabomba eða annar góður þeytingur í millimál og svo finnst mér best að fá mér gott salat í hádeginu. Þegar ég kem heim úr vinnunni fáum við okkur stundum ristað súrdeigsbrauð með banana eða osti en stundum sker ég bara niður ávexti, ég viðurkenni að þetta er tíminn sem ég stelst stundum í smá súkkulaði á eftir. Í kvöldmatinn borða ég bara allskonar, svona frekar venjulegan heimilismat myndi ég segja en við fjölskyldan elskum mexíkóskan mat og fáum okkur þannig líklega einu sinni í viku, við reynum að fara með fisk 1-2 sinnum í viku, erum mikið með kjúkling, gerum salöt og lengi mætti telja, bara svona týpískt held ég. Á kvöldin fæ ég mér svo alltaf eitthvað smá, stundum ís (gamla Vestubæjar) eða við poppum en ég viðurkenni að ég borða alltaf eitthvað eftir kvöldmat því ég er bara svöng eftir daginn enda hreyfi ég mig mjög mikið. Ég ráðlegg fólki að reyna að borða sem minnst eftir kvöldmat ef það getur.

Hvað borðar þú yfirleitt fyrir og eftir æfingar, ertu með góða uppskrift fyrir okkur?

Þegar ég er í vinnunni þá kenni ég kannski 2-3 tíma á dag en mér finnst best að fá mér hafgragraut í morgunmat og elska ég þessi uppskrift HÉR sem er dásamlegur kókosgrautur en hann gefur mér góða orku fyrir daginn og fyrsta tímann minn. Eftir æfingu finnst mér best að fá mér góðan þeyting eða skál sem er í rauninni bara þeytingur með múslí/granóla o.fl góðgæti ofan á en ég elska t.d. þess uppskrift HÉR. Gott salat með eggjum, kjúkling, lárperu o.fl, sjá uppskrift HÉR er best eftir hádegisæfingu og svo er ég alltaf hrifin af hafrabombu milli æfinga, sjá HÉR. Banani getur líka verið bara fínn fyrir æfingu ef maður vill bara eitthvað létt sem gefur orku eða harðsoðin egg, það fer svolítið eftir æfingunni hvað hentar best fyrir hana.

morgunmatur  morgunmatur

Uppáhalds “holli” og “svindl” maturinn?

Það er mjög erfitt að segja hver uppáhalds holli maturinn minn er því mér finnst svo margt gott, kannski avocado toast, ég elska það og svo allskonar hafragrautar, kaldir og heitir, þeytingar, skálar, salöt, ávextir, ber, fiskur, kjúklingaréttir og lengi mætti telja. Ég borða almennt frekar hollt en upphálds svindl maturinn minn er pizza, ég geri á hverjum föstudegi pizzur með fjölskyldunni og leikum við okkur með að gera allskonar pizzur en eftir að ég kynntist California Pizza Kitchen í Ameríku þá byrjaði ég á því að leika mér með allskonar útfærslur en þessi ítalska pizza er t.d. í miklu uppáhaldi, sjá  HÉR.

Minn veikleiki er hins vegar súkkulaði og ís, gæti ekki verið án þess en reyni bara að borða það í hófi og geri stundum hollan ís eins og þennan jarðaberjaís  HÉR en annars er gamli Vestubæjarísinn uppáhalds hjá mér.
 

Svindlmáltíð

Hvað finnst þér gaman að gera (fyrir utan líkamsþjálfun)?

Mér finnst best í heimi að eyða tíma með börnunum og eiginmanninum og gera eitthvað skemmtilegt með þeim, fara í heita pottinn okkar og spjalla um daginn, elda góðan mat saman, fara í göngutúr, sund, út að hjóla eða bara það sem okkur langar að gera þann daginn. Skíði er með því skemmtilegra sem ég geri og skíðaferðir eru toppurinn á tilverunni. Ég elska að ferðast en það er klárlega eitt það skemmtilegasta sem við gerum og svo finnst mér dásamlegt að eiga gæðastundir með vinkonum mínum en ég hleyp með þeim í hverri viku þar sem við spjöllum um allt milli himins og jarðar. Mér finnst gaman að fara út að borða góðan mat eða bjóða fólki í mat og bara njóta þess að vera til og hafa gaman af lífinu. Ég hef líka rosalega gaman af því að þjálfa mitt yndislega fólk sem gefur mér mikið og tel ég mig vera mjög lánsama að vinna við það sem mér finnst skemmtilegt að gera en það er ekki sjálfgefið.

Hvað er framundan hjá þér og hvernig getum við fylgst með þér?

Ég var að setja inn nýtt æfingaplan á heimasíðuna mína, Fit í sumar en ég mun halda áfram að setja inn ný og spennandi æfingaplön inn á hana því hún er að hjálpa svo mörgum konum að komast í frábært form og þeim finnst svo æðislegt að geta æft heima hjá sér eða bara hvar sem er því margar eru að keppast stöðugt við tímann, eru heima í fæðingarorlofi eða finna sér bara ekki tíma til þess að fara í ræktina og þetta er því fullkomin lausn fyrir þær. Ég er með þeim alla æfinguna í hvert skipti sem þær æfa og útskýri hverja æfingu með tali sem þeim finnst afar hvetjandi og upplifa þær sig ekki eina þó svo þær séu að æfa heima. Framundan er svo gott frí með fjölskyldunni í Californiu og hlaða batteríin fyrir annasamt haust hjá Hreyfingu þar sem margt nýtt og spennandi verður í boði! 

Anna Eiríks

Fylgstu með Önnu á heimasíðu hennarInstagram og Facebook

Fáðu ókeypis matarskipulag og uppskriftir hér!

Heilsa og hamingja,

jmsignature