Fara í efni

Emil Helgi Lárusson eigandi og framkvæmdastjóri Serrano í viðtali

Hann Emil Helgi er stofnandi og annar eigandi Serrano.
Emil Helgi á Serrano
Emil Helgi á Serrano

Hann Emil Helgi er stofnandi og annar eigandi Serrano.

“Ég er framkvæmdastjóri Serrano ásamt því að vera pabbi sem sór þess heit að stytta vinnudaginn til að geta leikið mér meira” sagði Emil.

“Leikirnir geta falið í sér Crossfit, skíði, golf, veiði, paragliding og marg fleira. Undanfarið hef ég þó reynt að finna afþreyingu sem fjölskyldan getur skemmt sér við saman”

Byrjum á að forvitnast hvernig týpískur morgun er hjá þér ?

Vakna og kem dætrum mínum í skóla. Fer á skrifstofuna og skipulegg daginn. Í fullkomnum heimi fer ég svo í Crossfit kl 9 ... en það hefur reyndar verið skammarlega sjaldgæft síðustu vikurnar enda framkvæmdir á tveimur nýjum veitingastöðum við Nýbýlaveg á fullu núna.

Hvað áttu alltaf til í þínum ísskáp ?

Guacamole frá Serrano -> það er bara svo fáránlega gott.

Hvers vegna þú fórst út í veitingarekstur og hver var kveikja að því að þið ákváðuð að leggja áherslu á heilsurétti framar öðru ?

Okkur félagana langaði að gera eitthvað saman að loknu háskólanámi. 

Við sáum ákveðið tækifæri á skyndibitamarkaðnum, þ.e. að bjóða uppá hollustu með hraði í hlýlegu umhverfi og úr varð Serrano.

Við töldum, með því að líta til annarra landa, að þessi markaður ætti eftir að vaxa talsvert á Íslandi.

Eftir því sem fólk venur komur sínar oftar á veitingastaði, þá vill það geta nálgast hráefni og samsetningar sem bæði gerir því gott og gælir við bragðlaukana.

Þess vegna tókum við þennan vinkil og sjáum ekki eftir því.

Þ.e. við lögðum upp með metnað í matargerð, engin aukaefni, mat úr alvöru hráefni sem væri á sama tíma bragðgóður og hollur.

Hvað segið þið um þann aukna kostnað sem fylgir því að bjóða upp á mikið af grænmeti og meiri hollustu ?

"Almennt í mínum huga þá held ég að fólk þekki gæði og bæði skilur og er tilbúið að greiða aukalega fyrir þau."

Með það í huga, þá er ég óhræddur við að bjóða uppá litrík matvæli, þetta getur verið kúnst þó varðandi birgðarhald o.fl. en það lærist.

Hvað getur þú sagt okkur um þá hollustu rétti sem þið eruð með, hvaða réttir eru vinsælastir og hver er þinn uppáhaldsréttur ?

Við notum engin aukaefni í okkar mat, ástæðan er reyndar ekki sú að þau séu öll slæm heldur vegur þar þyngra að þannig tryggjum við ferskleikann. Þ.e. varan hjá okkur getur hreinlega ekki orðið gömul, svo einfallt er það.

Við útbúum marineringar, sósur, guacamole o.fl. sjálf á hverjum degi, stundum oft á dag.

Burrito með kjúkling er okkar langvinsælasta vara og þá þannig að fólk velur sér innihaldið sjálft. Þ.e. ef þér finnst baunir góðar, þá færðu þér þær o.s.frv. 

Valið er klárlega einn af helstu styrkleikum Serrano.

Ég borða 5-6 sinnum í viku á Serrano og hef gert í meira en einn áratug. Mér finnst það ágætismerki um hversu fjölbreytileikinn er mikill hjá okkur að ég er enn ekki orðinn leiður á matnum.

Þannig á ég ekki neinn sérstakan uppáhaldsrétt, tek frekar tímabil þar sem ég fæ mér eitthvað eitt oftar en annað.

Núna er ég t.d. að prófa að sleppa tómatbragðinu, fæ mér þá burrito með mikið af svörtum baunum, kjúkling og Chipotle sósu. En ég enda samt alltaf á því að fá mér Pico de Gallo (ferska salsa) reglulega ... hún er bara svo góð með ferskum tómötum og nýskornu coriander.

Ég hef líka áhuga á að vita hvað þér finnst um skyndibita menningu okkar Íslendinga og í hvaða átt þú telur að hún sé að þróast ?

Hún hefur vaxið mikið og flóra staða með. 

Mér finnst gleðilegt að sjá hve "siðferði" í matargerðinni hefur verið að aukast. Það eru að spretta upp margir spennandi og skemmtilegir staðir sem gaman er að heimsækja.

Ég ferðast mikið og mér finnst við íslendingar vera nokkuð framalega á þessu sviði, kannski vegna þess hve fljót við erum að tileinka okkur nýjungar.

Að lokum, hver er stefna ykkar varðandi upplýsingagjöf fyrir þá sem eru með fæðu ofnæmi og óþol ?

Við viljum vera algjörlega gegnsæ hvað varðar matinn okkar. 

Við erum bæði með óþols- og næringartöflu á heimasíðunni okkar, www.serrano.is,  ásamt því sem kúnnar geta spurt okkur á hvaða tíma sem er ef eitthvað er óljóst.

Þetta er okkur mikilvægt, við viljum miðla þessum upplýsingum og þyggjum allar ábendingar til að bæta okkur.