Fara í efni

Þú ert allt - laugardagshugleiðing Guðna

Þú ert allt - laugardagshugleiðing Guðna

Ég veit alltaf hvað þú vilt!

Þú veist það líka.
Þú opinberar þig á hverju andartaki í líkamlegri afstöðu, með klæðaburði, orðanotkun, mataræði, lífsháttum, vinum, óvinum, heimili, börnum, fjölskyldu, atvinnu og þannig mætti lengi telja.

Þú vilt allt sem þú ert, allt sem þú hefur, allt sem hefur gerst í lífi þínu.

Þú vilt allt sem þú hefur. Ef þú gerir það ekki – þá ertu fórnarlamb! „Ef“ og „hefði“ eru ástarljóð fórnarlambsins og flest okkar yrkjum við nokkur slík á hverjum einasta degi.

Hér væri hægt að segja: „Því miður er staðreyndin sú að þú berð fulla ábyrgð á öllu í lífi þínu!“

En ég segi það ekki. Ég segi: „Blessunarlega er allt í þínu lífi á þína ábyrgð.“

Blessunarlega – því að lífið er ekki þér að kenna heldur þér að þakka, með öllum skemmtilegu snúningunum og ávinningunum og öllum „leiðinlegu“ aukahlutunum.

Blessunarlega vegna þess að þú býrð yfir mættinum til að breyta, snúa baki við vansældinni og stíga örugg skref í átt til velsældar.