Fara í efni

Silungur fyrir hreystimenni frá Birnumolum

Það er fátt sem jafnast á við bleikan fisk og held ég mikið upp á bæði lax og bleikju. Ofnbakaðar kartöflur og vel af grænmeti setja svo punktinn fullkomlega yfir i-ið.
Silungur fyrir hreystimenni frá Birnumolum

Það er fátt sem jafnast á við bleikan fisk og held ég mikið upp á bæði lax og bleikju.

Ofnbakaðar kartöflur og vel af grænmeti setja svo punktinn fullkomlega yfir i-ið.

Samkvæmt almennum ráðleggingum um mataræði ættum við að borða fiskmáltíð 2-3 sinnum í viku og þar af ætti 1 skiptið að vera feitur fiskur (t.d. lax, lúða, silungur og síld). Það er sko ekki dónalegt að hafa fisk á matseðlinum þetta oft í viku... eða oftar.

Margir veigra sér við að meðhöndla fiskinn sjálfir og kjósa frekar að kaupa tilbúna rétti eða fisk úr borði í ýmsum sósum. Ég hvet ykkur til að kaupa fiskinn ferskan og matreiða frá grunni. Þá vitið þið líka 100% hvað þið eruð með í höndunum.

Eftir að hafa prófað þessa ljúffengu marineringu á bleikjuna (eða laxinn) þá sjáið þið að það er leikur einn að græja góðan fisk sjálfur á skömmum tíma. 

Hér höfum við vel af hvítlauk og engifer og því er þessi réttur fyrir hreystimenni með gott ónæmiskerfi. Óttist samt ekki.... bragðið er í senn milt og gott.

Silungur fyrir hreystimenni:

700-800 g silungur eða lax

4-5 hvítlauksrif

1-2 cm bútur engifer

1 1/2 msk tamari sósa

1/2 msk hoisin sósa

1 tsk Rowse hunang

1 tsk sesamolía

Hvítur pipar eftir smekk

Herbamare salt

Aðferð:

1) Skolið fiskinn undir köldu kranavatni.

2) Smyrjið eldfast mót með olíu og leggið flökin í (roðið niður).

3) Blandið allt sem á að fara í marineringuna saman í matvinnsluvél eða blandara.

4) Hellið marineringunni yfir fiskinn og látið standa í kæli í 30 mín - 2 klst.

5) Bakið fiskinn við 180 °C í 15 mín.

Gott er að bera fiskinn fram með vel af grænmeti.

Uppskrift frá birnumolar.com