Fara í efni

Prótein í kúluformi

Tilvalið fyrir þá sem vilja aðeins meiri prótein inn fyrir sínar varir með öllu gúmmelaðinu. Líka tilvalið sem “eftir-æfinga-snarl”. Próteinríkt og kolvetnaríkt. Já og fituríkt. Góð blanda þegar líkaminn er í fullri brennslu og góðum fíling.
Próteinkúlur
Próteinkúlur

Hversu oft stend ég sjálfa mig að því að lauma í mig fitu og kolvetnum? Jú, ansi oft. Því flest allt góðgæti, hvort sem það er paleo-góðgæti eða ekki, inniheldur mest megnis fitu og kolvetni. Og próteinið situr eftir með sárt ennið. Hver myndi ekki velja hrákökusprengju stútfulla af alls konar hnetum, hnetusmjöri, kakói og þurrkuðum ávöxtum fram yfir próteinduft hrist út í vatn? Ég þyrfti ekki einu sinni að hugsa mig tvisvar um - hrákökusprengjan yrði alltaf fyrir valinu ;)

En hvað er þá til ráða til þess að koma próteini inn á matseðilinn? Jú - Einfaldlega að lauma honum með í hrákökusprengjuna! Eða hrákúlurnar, líkt og ég gerði þessu sinni. Þessi fína uppskrift, sem ég kýs að kalla prótein í kúluformi, inniheldur fyrst og fremst prótein. Og svo allt hitt gúmmelaðið :) Fyrir þá sem eru á paleo, þá er Hemp prótein ferlega flott í þessa uppskrift. Fyrir ykkur hin, þá er Whey til dæmis góður valkostur. Hér kemur uppskriftin, verði ykkur að góðu!

Próteinkúlur

Innihaldsefni:
1 skeið Prótein (Hemp prótein er paleovænt, aðrir geta t.d. notað Whey, jafnvel með bragði)
1/2 tsk Raw Kakó
2 msk Hnetusmjör (Gróft er betra, eða hreint út sagt ljúffengt!)
2 msk Hunang
1/4 tsk Vanilla

PróteinkúlurPróteinkúlur

Aðferð:
Innihaldsefnin eru öll sett í skál og þeim blandað saman og í kjölfarið hnoðuð. Ég skipti deiginu mínu í tíu litlar kúlur og rúllaði þeim svo upp úr chia-fræjum. Það má líka rúlla því upp úr einhverju öðru sem hugurinn girnist. Eða jafnvel engu :) Ef það á að tríta sig svolítið, sakar ekki að dýfa þeim ofan í 70% súkkulaði ;)

Þessa uppskrift ásamt fleirum má finna á siðunni paleolif.wordpress.com