Fara í efni

Mataræði íslenskra barna

Samkvæmt nýjustu landskönnun á mataræði sex ára barna 2011-2012 hafa matarvenjur sex ára barna þokast í átt að hollari venjum í samanburði við landskönnun 2001-2002.
Mataræði íslenskra barna

Staðan í dag.

Samkvæmt nýjustu landskönnun á mataræði sex ára barna 2011-2012 hafa matarvenjur sex ára barna þokast í átt að hollari venjum í samanburði við landskönnun 2001-2002.

Fylgni við núverandi ráðleggingar um mataræði og næringarefni var meiri en fyrir 10 árum síðan. Á árunum 2011-2012 dróst neysla á gosi og nýmjólk saman um þriðjung frá því 2001-2002 og neysla á kexi og kökum um 15%. Neysla á ávöxtum og grænmeti ásamt neyslu á morgunkorni jókst um 60% og neysla á kjöti og kjötvörum um fjórðung. Niðurstöður sýndu einnig fram á aukna neyslu á trefjum og minni neyslu á harðri fitu, sem lækkaði úr 16E% niður í 14E% (viðmið <10E%). Viðbættur sykur fór úr því að vera 13% af heildar orkuinntöku sex ára barna niður í 11% (viðmið <10E%). Gæði fitu og kolvetna var því enn ábótavant.

Niðurstöður nýjustu landskönnunar á mataræði sex ára barna árin 2011-2012 bentu til þess að um 20-25% af heildarorku í fæði barnanna hafi komið úr fæðuflokkum með takmarkaða næringarþéttni svo sem snakki, sælgæti, ís, kexi, kökum og sykruðum svaladrykkjum.

Þegar niðurstöður rannsóknarinnar eru skoðaðar með tilliti til fylgni við núverandi ráðleggingar um fæðuval kemur í ljós að þar þarfnast mikilla umbóta. Um það bil 20% barnanna fylgdu ráðleggingum um neyslu á ávöxtum og grænmeti, fiski, grófu brauði og öðrum trefjaríkum kornmat.

Þriðjungur barnanna fylgdi ráðleggingum um daglega inntöku lýsis og náði aðeins fjórðungur barnanna ráðlögðum dagsskammti eða meira af D-vítamíni. Aðeins 5% barnanna fylgdu ráðleggingum um neyslu á mjúkri fitu í stað harðrar og að halda saltneyslu í hófi. Flest barnanna fylgdu ráðleggingum um tvo mjólkurskammta á dag.

Þróun á mataræði barna á Íslandi er sambærileg og hjá nágrannalöndum okkar og virðast flestar þjóðir vera að kljást við of mikla neyslu á viðbættum sykri og harðri fitu meðal barna. Nauðsynlegt er að endurtaka rannsóknir á mataræði barna svo hægt sé að fylgjast með þróun þess.

Áhrifaþættir

Margir þættir hafa áhrif á breyttar matarvenjur barna og má þar nefna aðgengi að hollum mat sem er nauðsynlegt svo hollt fæðuval geti átt sér stað. Mjög öflugt starf hefur átt sér stað í grunnskólum landsins fyrir tilstuðlan landlæknisembættis með verkefninu heilsueflandi grunnskóli,sem er í takt við nýju aðalnámskrá grunnskóla.

Samkvæmt henni er heilbrigði og velferð eitt af grunnþáttum menntunar og skólastarf á að stuðla að heilsusamleg u fæðuvali með fræðslu og góðu framboði á fjölbreyttu fæði. Þegar tekið er mið af aukinni áherslu á heilbrigði og velferð er lítið pláss gefið fyrir kennslu á heilsusamlegum matarvenjum og lífsháttum í kennsluskrá.

Vandamálið er þó ekki skortur á fræðsluefni því finna má fjölbreytt fræðsluefni um mataræði og almennt heilbrigði bæði á vef Námsgagnastofnunnar og Embættis landlæknis. Með áframhaldandi áherslu á heilbrigði og velferð barna í skólasamfélaginu ásamt aukinni fræðslu fyrir börn og fjölskyldur þeirra má bæta mataræði barna enn frekar og stuðla þannig að velferð Íslendinga.

Höfundur: Hafdís Helgadóttir, næringarfræðingur og kennari.