Fara í efni

Listin að blanda guðdómlegan grænan boost

Rétta tæknin er sáraeinföld en skiptir öllu máli!
Listin að blanda guðdómlegan grænan boost

Allur matur á að fara upp í munn og niður í maga, – segir í vísunni og er ekki óvarlegt að áætla að höfundur fyrrgreindra orða hafi farið með réttmæli þar. En hversu ljúffengur sem græni drykkurinn er, getur illa blandaður grænn drykkur setið eftir í kekkjum og Guð forði okkur frá því að brosa blítt með spínatblöð milli tanna, hress og kát eftir síðasta gúlsopann.

Röðun skiptir höfuðmáli hér og svo hlutföllin. Engir tveir blandarar eru alveg eins að gerð og lögun, en tvær megingerðar blandara eru ríkjandi á markaðinum í dag. Hér að neðan förum við ofan í saumana á því hvernig best er að raða innihaldsefnum ofan í blandarann og hvernig þú átt að fá sem mest út úr græna orkudrykknum.

Niðurröðun – Hefðbundinn blandari:

Þú ættir alltaf að byrja á græna kálinu þegar þeyta á í grænan boost, (græna kálið fer í botninn á skálinni), hella því næst vökvanum út í blandarann og þeyta vel í fáeinar sekúndur áður en ávöxtum, berjum og jafnvel fræjum er þeytt saman við. Klakinn, ef kæla á drykkinn, fer síðastur í blandarann – en svona er ágætt að bera sig að:

  1. Grænt kál / Laufgað kál – neðst í blandarann
  2. Vökvi / Vatn, kókosmjólk, möndlumjólk, ávaxtasafi ofan á græna laufkálið
  3. Ávaxtaviðbót / Ferskir ávextir, ber og annað grænmeti
  4. Þurrefni / Kryddjurtir, próteinduft, fræ og möndlu- eða hnetusmjör
  5. Frosið hráefni / Klakar, frosnir ávextir

Niðurröðun – Smáblandari:

Þegar þú ert með smáblandara (eða einstaklingsblandara, eins og hann er líka kallaður) skaltu snúa röðinni við, því þú þarft að snúa könnunni á hvolf til að geta skrúfað skálina fasta við hnífinn og blandað drykkinn. Því er best að setja innihaldsefnin í miniblandarann í eftirfarandi röð:

  1. Frosið hráefni / Klakar, frosnir ávextir
  2. Þurrefni / Kryddjurtir, próteinduft, fræ og möndlu- eða hnetusmjör
  3. Ávaxtaviðbót / Ferskir ávextir, ber og annað grænmeti
  4. Vökvi / Vatn, kókosmjólk, möndlumjólk, ávaxtasafi ofan á græna laufkálið
  5. Grænt kál / Laufgað kál – neðst í blandarann

Svona er best að blanda græna boostinn:

  1. Byrjaðu á því að mæla græna laufkálið með því að þjappa kálinu í mælibolla (amerískan bolla eða desilítramál) og láttu svo innihaldið ofan í blandarann.
  2. Helltu nú vökvanum ofan á græna laufkálið til að losa um blönduna í skálinni.
  3. Settu því næst smátt skorna ávexti eða græmeti ofan á (3 cm búta eða minni sneiðar, ef blandarinn er undir 300 w til að ofgera ekki mótorinum).
  4. Ef þú bætir þurrefnum (próteindufti, fræjum, möndlusmjöri) í drykkinn, skaltu bæta þeim við þegar þú hefur sett ávextina í blandarann.
  5. Frosnir ávextir og klakar fara síðast í blandarann.
  6. Byrjaðu á meðalstyrk og þeyttu allt saman í 10 sekúndur og settu svo fullan styrk á blandarann og þeyttu allt vel saman í u.þ.b. 30 sekúndur. Ef blandan er þykk og stöðug í blandaranum, er ágætt að bæta ½ – 1 dl af vökva út í blönduna til að mýkja og jafna út hlutföllin í drykknum.

*ATH: Eins og komið var inn á í inngangi greinar, vilja fæstir (ef þá nokkur manneskja) ganga um með græn spínatlauf milli tanna – skælbrosandi, með grænan náttúrudrykk í annarri hendi. Þess vegna er ágætt að byrja á því að blanda saman vökva og grænu laufkáli í 15 – 30 sekúndur, eða þar til blandan er orðin slétt og áferðarfalleg. Stoppaðu því næst blandarann, taktu lokið af og bættu ávöxtum og öðrum innihaldsefnum út í blandarann!

Njótið heil!

 

Grein af vef kvon.is