Fara í efni

Hafrasjeik með hindberjum

Í síðustu viku útbjuggum við sniðuga hugmyndatöflu til að styðjast við í morgunsjeika gerð. Við studdumst einmitt við töfluna þegar þessi tvískipti hafra-hindberjasjeik varð til. Hann er voða góður og gæti verið sniðugt millimál þegar sætindaþörfin gerir vart við sig.
Hafrasjeik með hindberjum

Í síðustu viku útbjuggum við sniðuga hugmyndatöflu til að styðjast við í morgunsjeika gerð.

Við studdumst einmitt við töfluna þegar þessi tvískipti hafra-hindberjasjeik varð til. Hann er voða góður og gæti verið sniðugt millimál þegar sætindaþörfin gerir vart við sig.

Við notuðum hráefni úr öllum flokkum hugmyndatöflunnar nema þeim síðasta. Þeir sem vilja bæta einhverju extra út í gætu sem dæmi sett örlítið maca (1/2 tsk) og/eða ashawaganda (1/4 tsk) út í, passið að setja ekki of mikið, meira er ekki alltaf betra.

Sjeikinn er tvískiptur, bleikt hindberjamauk er sett í botninn og kakó-hafra sjeik ofan á. Tröllahafrarnir hleypast örlítið og gefa þykkt í sjeikinn, sértsaklega ef hann er látinn standa í smá stund. Spínatið er milt og yfirgnæfir ekki kakóbragðið. Saltið ýtir undir sætuna úr banananum og döðlunum og á alls ekki að vera mikið, bara rétt örlítið til að skerpa bragðið. Vanillan setur punktinn yfir i-ið eins og alltaf. Bleika maukið í botninum passar alveg hrikalega vel við, er frískandi og pínu súrsætt, engifersafinn gefur extra kikk sem er alveg nauðsynlegt.

Til að gera brúna sjeikinn búðingslegri er hægt að bæta 1/2 avókadó út í eða nota meira af banana. Til að breyta sjeiknum í desert má auka á döðluskammtinn eða bæta við öðrum sætugjafa.

Uppskriftin

Brúnn 
1/2 dl tröllahafrar 
2 dl vatn 
1 lúka gott spínat 
1/2 - 1 banani (eftir stærð og smekk) 
2-3 döðlur 
1 msk + 1 tsk kakóduft 
1/2 tsk vanilla 
örlítið sjávarsalt 

Bleikur 
1 dl hindber (ef frosin leyfið aðeins að þiðna)
1/4 epli (rifið eða skorið í mjög litla bita) 
1 tsk engiferskot (eða rifinn engifer)

Aðferð

  1. Byrjið á að setja hráefnið í brúna sjeikinn i blandarann og blandið vel saman. 
  2. Hrærið hindberjum, rifnu epli og engifersafa saman, gott að stappa aðeins með gaffli.
  3. Setjið bleika maukið í botninn á glasi eða krukku.
  4. Hellið brúna sjeiknum yfir. Ef þið látið standa í smá stund þykknar sjeikinn aðeins.
  5. Njótið með skeið, eða skellið loki á krukkuna og njótið síðar.

Njótið vel - uppskrift frá maedgurnar.is